132. löggjafarþing — 72. fundur,  22. feb. 2006.

Málefni heilabilaðra.

370. mál
[13:08]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni fyrir að bera fram þessa fyrirspurn. Ég tel mjög mikilvægt að greining á alzheimersjúkdómnum eða minnisskerðingu aldraðra sé efld og að þegar í upphafi sé boðið upp á iðjuþjálfun og stuðning fyrir heimili sjúklingsins. Eins er mikilvægt að tekið sé tillit til fjölgunar stöðugilda inni á hjúkrunarheimilum þar sem minnisbilaðir dvelja. Það þarf að fjölga dagvistunarplássum og sérstaklega hvíldarinnlögnum með tilliti til aðstandenda því að hafa minnisbilaðan einstakling eða alzheimersjúkling inni á heimili er mjög mikið álag fyrir maka og ættingja.