132. löggjafarþing — 72. fundur,  22. feb. 2006.

Málefni heilabilaðra.

370. mál
[13:10]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að koma með þessa fyrirspurn. Svör hæstv. ráðherra sýndu glögglega hversu gríðarlegar eyður eru í neti af stofnunum fyrir heilabilaða. Mjög víða á landinu vantar slíkar stofnanir, það vantar örugglega líka mikið upp á að við veitum þeim sem eiga heilabilaða ættingja nægilegan stuðning. Ég held að skipuleg leit að þessum vandamálum sé mjög nauðsynleg og geti hjálpað fólki. Nú eru líka til meðul sem seinka mjög þessum sjúkdómi ef byrjað er nógu snemma að vinna gegn honum. Þess vegna er full ástæða til að hvetja hæstv. heilbrigðisráðherra til að koma af stað einhvers konar samræmdri áætlun til að koma þessum málum öllum í betra horf.