132. löggjafarþing — 72. fundur,  22. feb. 2006.

Málefni heilabilaðra.

370. mál
[13:13]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrirspyrjanda fyrir að hreyfa þessu máli og þakka fyrir umræður og ábendingar sem komið hafa fram. Þær snúa einkum að þrennu en þar má fyrst nefna aukna þjónustu við heilabilaða utan stofnana með dagvistun og hvíldarinnlögnum. Ég er sammála því að við þurfum að horfa á þá möguleika. Við þurfum að athuga sérstaklega hvort hægt er að setja upp deildir fyrir heilabilaða þar sem þær eru ekki nú ef aðstæður eru til þess. Við erum t.d. nýlega búnir að innrétta heilabilunardeild á hinu fræga heimili Sólvangi í Hafnarfirði og þar er búið að stúka af pláss og bæta aðstöðu fyrir heilabilaða. Einnig var bent á áætlanagerð en það erum við að skoða í tengslum við öldrunarmálin almennt.

Varðandi fræðsluna get ég ekki látið hjá líða að minna á hið gífurlega starf sem alzheimersamtökin hafa innt af hendi í þessu. Þau hafa gefið út bæklinga og bækur en ég segi það samt að það á auðvitað ekki að leggja allar þær byrðar á þær herðar þó að þar séu miklir eldhugar sem fara fyrir þeim samtökum og ég tek undir það ég held að okkur greini ekkert mikið á í þessu. Þetta er alvarlegt mál sem við ræðum um, alvarlegur sjúkdómur sem auðvitað snertir okkur öll sem hér erum eins og aðra.