132. löggjafarþing — 72. fundur,  22. feb. 2006.

Dagpeningar til foreldra langveikra barna.

523. mál
[13:28]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Söndru Franks fyrir að bera fram þessa fyrirspurn. Ég tel hugmyndina góða. Það er ljóst að þrátt fyrir núverandi stuðning við fjölskyldur langveikra barna þá vantar mikið á að fólk úti á landi búi við sama stuðning og kjör og höfuðborgarbúar. Í langflestum tilfellum verður atvinnumissir hjá öðru foreldri, oftast móður. Það verður a.m.k. mikill tekjumissir og oft og tíðum valda langvarandi veikindi barna því að fjölskyldur flytja utan af landi og til höfuðborgarinnar, bæði til að vera nær þjónustunni og ekki síður vegna röskunarinnar og kostnaðarins sem því fylgir að búa úti á landi og hafa barn í meðferð fyrir sunnan.