132. löggjafarþing — 72. fundur,  22. feb. 2006.

Dagpeningar til foreldra langveikra barna.

523. mál
[13:30]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Sandra Franks) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að mér fundust svör hæstv. ráðherra vera heldur óskýr. Ég veit ekki hvort hann sagði það hreint út að hann hyggist beita sér fyrir því að foreldrar langveikra barna sem þurfa að sækja læknismeðferð um langan veg fjarri heimahögum fengju dagpeninga alveg eins og þeir foreldrar sem þurfa að fara til útlanda. Ég er ekki viss um að sá munur sem stjórnvöld gera á foreldrum við þessar tvenns konar mismunandi aðstæður standist jafnræðisregluna.

Mörg dæmi eru þess að fjölskyldur þurfa að fara til útlanda með börn sín í læknismeðferð og fá sem betur fer bót meina sinna og má nefna dæmi um hjartveik börn. Ég hef sjálf af því reynslu með mitt eigið barn. Önnur sem ekki eru jafnbráðsjúk en þurfa hins vegar oft að fara reglulega í læknismeðferð innan lands fjarri heimabyggð og verða stundum skyndilega mikið veik þannig að slík ferðalög verða ekki skipulögð, kostnaður þeirra foreldra getur orðið miklu meiri og röskunin á högum þeirra miklu róttækari, ekki síst fjárhagslega, en þeirra foreldra sem fara til útlanda með börnin sín. Er það réttlátt að þeir fái ekki greiðslur með sama hætti og hinir?

Hér er ekki um margar fjölskyldur að ræða og ríkissjóður fer varla illa á því að rétta hlut þeirra. Ég held að hæstv. ráðherra hafi nógu stórt og gott hjarta til að skilja þetta og ég man að einu sinni fór stjórnmálaflokkur um landið sem sagði: Fjölskyldan í fyrirrúmi.

Það er ekkert sem fer jafnilla með fjölskyldur, held ég, og þegar barn verður langveikt og þegar fjölskyldan býr fjarri þeim stað sem læknismeðferðin er veitt. Þess vegna hvet ég hæstv. ráðherra til dáða í þessu máli því ég var sammála stjórnmálaflokknum sem sagði að fjölskyldan ætti að vera í fyrirrúmi.