132. löggjafarþing — 72. fundur,  22. feb. 2006.

Innflutningur á landbúnaðarvörum.

524. mál
[13:45]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég treysti hæstv. landbúnaðarráðherra ágætlega til að koma í veg fyrir að hingað verði flutt inn kjöt eða vörur sem valda smiti eða einhverju slíku. Ég hef meiri áhyggjur af því að hann gangi kannski fulllangt í því. Það er ekki ástæða til að standa svo að málum í þeim tilgangi að verja einokunarfyrirkomulag eða sérstöðu.

Vandinn er líka hér heima. Hæstv. landbúnaðarráðherra hefur staðið vörð um einhæfa kjötframleiðslu á vegum mjólkurframleiðenda á kostnað þeirra sem vilja framleiða annað kjöt. Hann hefur einungis stigið hænuskref í áttina til þess að koma á einhverju jafnræði til að framleiða nautakjöt í landinu. Ég hvet hæstv. ráðherra eindregið til þess að líta aðeins í eigin barm og velta því fyrir sér hvort ekki sé ástæða til að standa öðruvísi að málum hvað það varðar.