132. löggjafarþing — 72. fundur,  22. feb. 2006.

Innflutningur á landbúnaðarvörum.

524. mál
[13:46]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Þuríður Backman) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka svar hæstv. landbúnaðarráðherra varðandi fyrri fyrirspurnina og er mjög ánægð með að afstaða hans skuli vera óbreytt varðandi innflutning á kjöti frá Argentínu. En þar sem hér eiga að gilda mjög strangar reglur og þar sem hæstv. landbúnaðarráðherra á að fara að ráðum yfirdýralæknis þá stendur þannig á varðandi beiðnina um innflutning á kjöti frá Argentínu að þrátt fyrir að upp hafi komið tilfelli í annað sinn á fimm árum þá gaf yfirdýralæknir fyrir sitt leyti leyfi fyrir þessum innflutningi. Það var á valdi hæstv. ráðherra að fara að ráðum yfirdýralæknis eða banna innflutninginn. Fékk hann ekki þökk fyrir hjá þeim sem að innflutningi vildi standa en ég tel að hann hafi sýnt þar meiri ábyrgð en yfirdýralæknir.

Ég óska eftir því að hæstv. landbúnaðarráðherra svari betur seinni spurningunni. Telur hann ekki að það muni auðvelda yfirdýralækni og landbúnaðarráðherra að taka þessar ákvarðanir ef settar verða reglur um hversu langur tími verði að líða frá því að smit kemur upp og þar til innflutningur verður leyfður? Sem dæmi má nefna að í Argentínu er ekki vitað hvernig þessi smit berast á milli, það eru bólusetningar í gangi sem halda sjúkdómnum niðri, en til að taka af allan vafa finnst mér hæstv. ráðherra þurfa að vinna aðeins betur varðandi þetta og setja ákveðnari reglur um tímasetningu til að auðvelda afgreiðslu þessara mála.