132. löggjafarþing — 73. fundur,  22. feb. 2006.

Útvarpslög.

79. mál
[14:11]
Hlusta

Flm. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þann áhuga sem hv. þingmaður sýnir þessu máli. Ég lít þannig á að hann sé alls ekki afhuga þeirri tillögu sem þar kemur fram.

Varðandi það hvort ekki sé rétt að leggja einhverjar skyldur á sjónvarpsstöðvar sem telja sig vera íslenskar þá held ég að það felist í því ef menn vilja reka sjónvarpsstöð og kalla hana íslenska þá sé eitthvað íslenskt við hana, þar á meðal íslenskt tal. Ég tel að í núgildandi 1. mgr. 8. gr. útvarpslaga sé meginregla sem við eigum að halda okkur við. Þar segir að efni á erlendu máli sem sýnt er á sjónvarpsstöð skuli jafnan fylgja íslenskt tal eða texti á íslensku eftir því sem við á hverju sinni. Við þeirri meginreglu er ekkert hróflað í þessu frumvarpi. Meginreglan verður eftir sem áður sú að jafnan fylgi íslenskt tal eða texti á íslensku með erlendu efni. Síðan er lögð til breyting á undantekningarreglunni og lagt til að hún víkki örlítið út þannig að hún nái ekki einungis til frétta og fréttatengds efnis heldur einnig til íþróttaviðburða og menningaratburða.

Hv. þingmaður spyr hvort ég, og væntanlega aðrir flutningsmenn, hafi ekki áhyggjur af því að við séum að gefa íslenskunni á lúðurinn og að grafa undan henni. Eins og ég sagði þá er það ekki þannig. Ég tel að í þessu felist ekki veiking á íslenskri tungu. Ég tel að við getum ekki eða að hæpið sé að ætla að verja hana og efla með boðum og bönnum. Ég held að við ættum frekar að grípa til annarra aðgerða, t.d. að þjálfa íslensk ungmenni í meðferð á texta og ræðumennsku og öðru slíku. En ég minni á það sem fram kemur í frumvarpinu og það er (Forseti hringir.) að þessar útsendingar eru leyfðar fyrir erlendar stöðvar. Af hverju ekki íslenskar?