132. löggjafarþing — 73. fundur,  22. feb. 2006.

Útvarpslög.

79. mál
[14:16]
Hlusta

Flm. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég fagna yfirlýsingu hv. þingmanns um það að hann telji að samþykkja eigi þetta frumvarp og gera það að lögum. Það er liðsstyrkur sem munar um að heyra að hv. þingmaður styður þetta frumvarp. Ég held að við séum alveg sammála. Það er nauðsynlegt að þjónusta þá sem ekki skilja erlend tungumál og núgildandi 1. mgr. 8. gr. útvarpslaga gerir það með þeirri meginreglu sem þar kemur fram að efni á erlendu máli sem sýnt er á sjónvarpsstöð skuli jafnan fylgja íslenskt tal eða texti á íslensku eftir því sem við á hverju sinni. Það er ekkert verið að leggja til að því verði breytt. Það er bara verið að leggja til að undantekningin í 2. mgr. verði útvíkkuð örlítið.

Við erum sammála um það, ég og hv. þingmaður, að það eigi að þjónusta þá sem ekki skilja erlend tungumál. Hvað varðar þá viðburði sem hér heyra undir, hvort sem það eru knattspyrnuleikir eða aðrir íþróttaviðburðir, þá hygg ég þó að menn þurfi ekki á yfirgripsmikilli tungumálakunnáttu að halda til að skilja það sem fram fer á skjánum. Ef menn kunna skil á meginreglum leiksins þá sér leikurinn um restina, ég held að það sé aðalatriðið.

Ég vona að ég og hv. þingmaður getum einhent okkur í að skoða stöðu íslenskrar tungu og finna leiðir til að efla hana. Ég held að við séum báðir áhugamenn um það, miklir vildarvinir móðurmálsins. Hvað sem segja má um þuli í Júróvisjón-söngvakeppnum, sem ég tel að hafi staðið sig afar vel einkum á hinum allra síðustu árum, þá held ég að við hv. þingmaður ættum að einhenda okkur í þetta verkefni.