132. löggjafarþing — 73. fundur,  22. feb. 2006.

Þróunarsamvinna Íslands við önnur ríki.

137. mál
[14:40]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Ég tek hjartanlega undir þá þingsályktunartillögu sem hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir flytur með nokkrum öðrum þingmönnum úr öðrum flokkum en Samfylkingunni. Ég held að þó að stjórnvöld hafi á síðustu árum tekið á sig nokkra rögg varðandi þróunarsamvinnu þá þurfum við að gera miklu betur.

Ég vil samt í upphafi máls míns fagna því að hæstv. forsætisráðherra hefur sýnt meiri skilning á þessu efni en forveri hans. Hann hefur lýst því yfir að stefna eigi að því að meira en þrefalda þróunaraðstoð Íslendinga sem hlutfall af vergri landsframleiðslu. Þetta er í sjálfu sér mjög lofsvert.

Ég vil sérstaklega taka undir þau áskorunarorð í greinargerð með tillögu hv. þingmanna þar sem skorað er á stjórnvöld að flýta töluvert mikið að ná því markmiði að veita 0,35% til þróunaraðstoðar af vergri landsframleiðslu. Það skiptir máli fyrir það fólk sem nýtur hennar að þessi aðstoð okkar komi sem fyrst og skjótast.

Ég er algerlega sammála því sem hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir sagði í tölu sinni áðan að við þurfum að móta samræmda stefnu um aðstoð okkar við fátæku ríkin og það þarf að gerast með aðkomu Alþingis. Reyndar er ég þeirrar skoðunar að ákvarðanir um stefnu varðandi þróunarsamvinnu sé það meiri háttar pólitísk ákvörðun í utanríkismálum að hana eigi að taka í samvinnu við utanríkismálanefnd. En eins og virðulegur forseti veit er í þingsköpum sérstakt ákvæði um að allar meiri háttar ákvarðanir af þeim toga eigi að taka í samráði við nefndina. Því er það auðvitað heldur dapurlegt að það hefur ekki verið gert.

Ég er samt ekki að kvarta undan því að Íslendingar séu að fylgja rangri stefnu en á stundum virðist hún kannski ekki beinlínis vera með augun föst á einhverju markmiði inni í framtíðinni. Ég hef heldur ekki alltaf skilið hvað það er sem veldur því að Íslendingar ráðast í tiltekið verkefni og aðstoða ákveðin lönd. Ég veit af eigin reynslu þegar ég hef rætt þessi mál á liðnum árum við þá sem móta stefnu í þessum efnum að stundum ráða hlutir eins og hvaða tungumál er talað í viðkomandi landi, hvort ráðist er í aðstoð við það.

Ég er þeirrar skoðunar að það séu þrír þættir sem stjórnvöld geti beitt sér fyrir sem hafa mikil áhrif varðandi framlög og stuðning við fátækari ríki heims. Í fyrsta lagi geta stjórnvöld beitt sér fyrir því að reglum um skattheimtu á Íslandi verði breytt þannig að Íslendingar séu hvattir til að láta af höndum rakna til líknarfélaga sem vinna t.d. að þróunarsamvinnu. Fyrir árið 1979 var það þannig að góðgerðarsamtök sem unnu á þessu sviði gátu lagt fram allt að 10% af skattskyldum tekjum sínum til að styrkja slík samtök. Í þessu fólst auðvitað gríðarlega sterkur hvati sem menn notfærðu sér kannski um of og stjórnvöld tóku af þann hvata. Nú er það þannig að Ísland er eina ríkið í löndum Evrópusambandsins og eina ríkið sem ég þekki þar sem einstaklingar fá engan skattalegan hvata til að láta eitthvað af höndum rakna. Þetta er mikilvægt vegna þess að kannanir hafa sýnt að Íslendingar eru meðal þeirra þjóða sem eru fúsastir til að gefa rausnarlega til starfsemi af þessu tagi. Við eigum auðvitað að ýta undir það vegna þess að okkur ber siðferðileg skylda til að gera allt sem hægt er til að ýta undir starfsemi af þessum toga.

Í öðru lagi geta íslensk stjórnvöld á alþjóðavettvangi beitt sér fyrir viðskiptafrelsi. Ég er þeirrar skoðunar að ekkert kæmi þróunarríkjunum betur en hömlulaus aðgangur eða sem takmarkað mynstur að hinum vel stæðu mörkuðum í Evrópu og í Bandaríkjunum. En því miður er það svo að svartasti bletturinn á Evrópusambandinu, sem ég að öðru leyti er hrifinn af, eru einmitt tollmúrarnir sem Evrópusambandið hefur reist í kringum sig. Eftir að hafa haft nokkur kynni, ekki löng en góð, af fátæku landi í Afríku er ég sannfærður um að iðjusemi þeirra sem þar búa og lágt verðlag á vinnuafli gæti ekki annað en skapað mikil tækifæri fyrir þá þjóð sem er allslaus og hefur ekkert á milli handanna ef hún gæti selt framleiðslu sína á markaði Evrópusambandsins, en það er því miður ekki hægt í dag, hvorki ávexti né handiðnað. Þetta skiptir miklu máli og ég vek eftirtekt á því að það hafa einmitt verið forustumenn jafnaðarmanna á alþjóðasviðinu sem hafa hvað sterkast reist nauðsyn þess að koma á viðskiptafrelsi.

Í þriðja lagi er bein þróunaraðstoð við tiltekin ríki. Við þurfum að móta stefnu um hvernig þau ríki eru valin. Við höfum t.d. verið að styrkja örsnautt ríki í Afríku sem heitir Malaví sem hefur eins og svo mörg hinna fátækustu ríkja Afríku lengi verið undir spilltri harðstjórn þar sem lýðfrelsi er lítið og markaðslögmálin virka ekki með sama hætti og hjá okkur. Það er allra góðra gjalda vert að setja mikla peninga í góð verkefni í Malaví. En það er hins vegar merkilegt þegar maður skoðar það land að það er eins og það sé með vissum hætti brennipunktur fyrir margvíslega alþjóðlega aðstoð. Þar eru mjög mörg ríki og mjög mörg alþjóðleg hjálparsamtök að verki.

Ef við tökum síðan annað land í svörtu Afríku eins og Tógó, sem ég þekki svolítið af eigin raun, þá má heita að það séu engin alþjóðleg samtök sem þar hafa stigið niður fæti. Stjórnarfarið er með þeim hætti að Evrópusambandið hefur í 15 ár skirrst við að láta nokkra þróunaraðstoð af höndum rakna og enginn er að hjálpa þessu ríki fyrir utan örfá lítil líknarsamtök sem reka þar barnaheimili, SOS-samtökin og SPES-samtökin sem m.a. starfa á Íslandi, en að öðru leyti má segja að óskaplega lítið sé um að vera í því landi í formi alþjóðlegrar mannúðarstarfsemi. Hver er ástæðan fyrir því að t.d. lönd eins og Ísland, Norðurlöndin og Bretland eru ekki að störfum þar? Jú, Tógó, eins og Vestur-Afríka að stóru leyti þar sem mikil fátækt ríkir, er gömul frönsk nýlenda. Frönsk áhrif eru þar mjög sterk og þar er töluð franska. Bara þetta atriði, hvaða tungumál er talað, sem okkur finnst þegar við stöndum í ræðustól uppi á Íslandi að skipti litlu máli, veldur því að margar þjóðir sem helst vilja spjalla við heiminn á ensku fyrir utan sitt eigið tungumál finnst erfitt og torvelt að nálgast það viðfangsefni að starfa í slíkum löndum. Þetta eru atriði sem mér finnst varða litlu máli og svona atriði eiga ekki að skipta máli.

Punktur athugasemdar minnar er þessi: Það skortir skýra málefnalega stefnu um með hvaða hætti við eigum að taka ákvarðanir um þau verkefni sem við ætlum að taka þátt í.

Að lokum. Við þurfum að draga atvinnulífið inn í þetta. Ég hef af skammri reynslu af svona starfi komist að raun um að atvinnulífið er örlátt og ef augu þess eru opnuð eru menn reiðubúnir til að gefa af töluverðri gjafmildi til svona starfa.