132. löggjafarþing — 73. fundur,  22. feb. 2006.

Takmörkun auglýsinga á óhollri matvöru.

162. mál
[14:53]
Hlusta

Flm. (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu um takmörkun auglýsinga á óhollri matvöru sem beint er að börnum. Flutningsmenn ásamt þeirri sem hér stendur eru hv. þingmenn Össur Skarphéðinsson, Guðrún Ögmundsdóttir, Anna Kristín Gunnarsdóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir og Valdimar L. Friðriksson. Tillagan hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að kanna grundvöll fyrir setningu reglna um takmörkun auglýsinga á matvöru sem inniheldur mikla fitu, sykur eða salt með það að markmiði að sporna við offitu, einkum meðal barna og ungmenna. Ráðherra leitist í þessu skyni m.a. við að ná samstöðu með framleiðendum, innflytjendum og auglýsendum um að þessar vörur verði ekki auglýstar í sjónvarpi fyrr en eftir klukkan níu á kvöldin.“

Þetta er í annað sinn sem ég mæli fyrir tillögu í þessa veru en tillagan að þessu sinni er aðeins breytt, farin er mildari leið. Ég vil geta þess að þarna leggjum við til leið sem Bretar hafa farið, en þeir hafa einmitt bannað auglýsingar á óhollustu eða ruslfæði í sjónvarpi fyrr en eftir klukkan níu á kvöldin, því að gert er ráð fyrir að börn horfi á sjónvarp fram að þeim tíma á kvöldin en það hefur verið kannað þar.

Virðulegi forseti. Offita er hratt vaxandi heilbrigðisvandamál, einkum í hinum vestræna heimi og er Ísland engin undantekning. Hafa rannsóknir sýnt að offita er í raun orðin faraldur í íslensku þjóðfélagi en hún eykur stórlega líkur á ýmsum sjúkdómum, t.d. sykursýki 2 eða svokallaðri áunninni sykursýki, hjarta- og æðasjúkdómum, ristilkrabbameini, kæfisvefni og stoðkerfissjúkdómum, auk þess sem fullyrða má að sálrænir fylgikvillar offitu séu verulegir. Þrátt fyrir framangreint hefur lítið farið fyrir beinum aðgerðum stjórnvalda til að stemma stigu við þessari þróun. Á 131. löggjafarþingi samþykkti Alþingi þingsályktunartillögu heilbrigðis- og trygginganefndar um aðgerðir til að bæta heilbrigði Íslendinga með hollara mataræði og aukinni hreyfingu. Í vetur kallaði ég eftir því hjá forsætisráðherra, sem er með málið, hvort hann hefði sett nefnd á laggirnar og þá hafði hann nýverið gert það en það hafði dregist allverulega, í nokkra mánuði frá því að tillagan var samþykkt, en sem betur fer er vinna farin af stað í þeirri nefnd.

Í þessu sambandi og í þeirri vinnu er mjög mikilvægt að stjórnvöld beini sjónum að aukinni offitu meðal barna og ungmenna því að tíðni offitu hjá börnum vex hröðum skrefum. Það er staðreynd að líkur eru á að börn sem eru of feit verði feit á fullorðinsárum. Í skýrslu sem ber heitið „Markaðssetning óhollrar fæðu sem beint er að börnum í Evrópu“ er fjallað um verkefnið „Börn, offita og tengdir langvinnir sjúkdómar sem má forðast“ sem samtökin Hjartavernd og systrasamtök þeirra í 20 löndum vinna að. Þar kemur fram að verulega skortir reglur um slíka markaðssetningu en aðeins sex lönd í Evrópu hafi sett slíkar reglur. Einnig sé mikilvægt að skilgreina annars vegar hollan mat og hins vegar óhollustu. Flutningsmenn telja mikilvægt að ráðherra beiti sér fyrir slíkri skilgreiningu í tengslum við þessa vinnu. Einnig þarf að huga að auglýsingum á óhollustu á vefnum sem beint er sérstaklega að börnum og hvort unnt sé að takmarka slíkar auglýsingar, en um vefinn hafa gilt fáar eða litlar reglur.

Með tillögu þessari er lagt til að Alþingi feli heilbrigðisráðherra að kanna grundvöll fyrir setningu reglna um takmörkun auglýsinga á matvöru sem inniheldur mikla fitu, sykur eða salt með það að markmiði að sporna við offitu, einkum meðal barna og ungmenna. Er í þessu skyni lagt til að ráðherra reyni að ná samstöðu með framleiðendum og innflytjendum þessarar vöru sem og auglýsendum um að slíkar auglýsingar verði ekki sýndar í sjónvarpi fyrr en eftir klukkan níu á kvöldin en með því móti ætti að mestu að vera tryggt að börn sjái þær ekki. Nauðsynlegt er að horfast í augu við að áhrifamáttur auglýsinga er mikill og þegar um börn er að ræða er hann verulegur. Með auglýsingum eru umræddar matvörur gerðar eftirsóknarverðar í augum barnanna og með hliðsjón af niðurstöðum rannsókna sem sýna sífellt aukna sykur- og fituneyslu meðal barna og ungmenna má álykta að auglýsingarnar nái tilætluðum árangri. Hér er auðvitað að mestu leyti átt við svokallaðar ruslfæðis- og sælgætisauglýsingar. Það er von og trú flutningsmanna að framleiðendur, innflytjendur og auglýsendur taki ábyrgð á þessum málum þannig að unnt verði að koma slíku auglýsingabanni á án beinnar lagasetningar. Með framangreindu er ekki gert lítið úr ábyrgð foreldra í þessu efni. Þvert á móti er það skoðun flutningsmanna að þar sé ábyrgðin mest. Hins vegar kemur það ekki í veg fyrir aðrir axli þá ábyrgð sem þeim ber í þessum málum. Að ota í sífellu óhollum mat að börnum og ungmennum án þess að hirða um afleiðingarnar er ábyrgðarleysi.

Flutningsmenn vekja í þessu sambandi athygli á þeim aðgerðum sem bresk heilbrigðisyfirvöld hafa gripið til en tillaga þessi hefur þær að nokkru sem fyrirmynd, en þeir hafa bannað auglýsingar á þessum vörum fyrir kl. 9 á kvöldin. Við teljum að mjög markvissar aðgerðir þurfi til að vega að rótum þess vanda sem offitan er og þess vegna er þessi tillaga hugsuð sem þáttur í slíkum aðgerðum.

Í fylgiskjali með þingsályktunartillögunni er frétt um hvernig Bretar hafa farið að með því að banna að auglýsa ruslfæði. Það var gerð áætlun um að banna einungis ruslfæðisauglýsingar þegar barnaefni er sýnt eins og Svíar og Norðmenn hafa þegar gert. Þeir banna allar auglýsingar á þeim tímum sem barnaefni er sýnt og það ætluðu Bretarnir að gera líka. En eftir að þeir höfðu kannað hversu mikið börn horfa á sjónvarp og á hvaða tímum þá kom í ljós að 70% af þeim tíma sem börn horfa í sjónvarp er á milli sex og níu á kvöldin. Þess vegna var ákveðið að hafa bannið víðtækara en bara í kringum barnaefnið.

Ákveðnar verslunarkeðjur í Bretlandi hafa líka farið að merkja matvörur, þ.e. óhollar matvörur sérstaklega og síðan hollar matvörur, til að auðvelda fólki að velja og kaupa hollustuvörur fyrir fjölskylduna. Tvær verslunarkeðjur, Tesco og Sainsbury, hafa þegar sett slíkar viðvörunarmerkingar á mat þar sem tekið er mið af ráðleggingum frá yfirvöldum.

Þegar ég flutti þetta þingmál fyrst á síðasta þingi þá vakti það allnokkur viðbrögð og umræðu í samfélaginu. Þótti mönnum þarna vera seilst helst til langt að eiga að fara að banna auglýsingar. Ég hef mætt á marga fundi um þessi mál eftir að ég lagði það fram á síðasta þingi og síðan þá hefur umræðan aukist og m.a. hefur umboðsmaður barna tekið það upp á sína arma og hefur komið fram í fréttum að hún telur rétt að banna auglýsingar í kringum barnatíma í sjónvarpinu. Hún hefur sagt opinberlega að fram hafi komið auglýsingar sem hún telur brjóta í bága við lög og aðrar sem eru á mörkum hins siðlega. Hún hefur hvatt til þess að auglýsendur sýni varkárni vegna trúgirni barna. Umboðsmaður barna hefur sem sagt tekið þessi mál upp og vill meiri umræðu um þetta. Núna 1. mars verður málþing um auglýsingar sem beint er að börnum. Mig langar að vitna í frétt á Stöð 2 7. nóvember síðastliðinn, með leyfi forseta:

„Ingibjörg [umboðsmaður barna] hefur efnt til samstarfs við Neytendastofu, Heimili og skóla og talsmann neytenda um hvernig best sé að bregðast við, og til að vekja umræðu.

Ingibjörg Rafnar: Ég vil miklu frekar skoða það hvort við ættum búa til eins og Svíar og Norðmenn gera, reglur sem segja að fyrir og eftir barnaefni eða efni sem er sérstaklega er ætlað yngstu börnum að þá sé engar auglýsingar.“

Hún er sem sagt að benda þarna á norsku og sænsku leiðina og hún segir að þetta sé spurning um siðgæði.

Þetta mál hefur líka komið til umræðu á þingi í fyrirspurnatímum. Þar hafa menn tekið undir þennan vilja okkar þingmanna sem flytjum þetta mál. Í vetur þegar hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir spurðist fyrir um þetta þá lýsti hæstv. menntamálaráðherra því yfir að hún teldi jafnvel nauðsynlegt að lagasetningu þyrfti til að stoppa þetta. En hún vill fyrst reyna mildari leiðina eins og við leggjum til hérna. Við skulum vona að ekki þurfi lagasetningu til að gera þetta. Það má alveg nefna það hér að yfirmaður heilbrigðismála hjá Evrópusambandinu hefur sent út tilmæli til aðildarríkjanna um að fara þessa leið, að auglýsa ekki óhollustu í kringum barnaefni í sjónvarpi og sömuleiðis beina ekki auglýsingum að börnum. Hann hefur sagt að verði aðildarríkin ekki við því þá verði hann að skoða að setja um þetta tilskipun.

Í umræðunni um þessi mál segist forstjóri Lýðheilsustöðvar hafa verulegar áhyggjur af þessum málum, segir að auglýsingar verði sífellt ágengari og beinist athygli auglýsenda sífellt meira að börnum. Hún bendir á 8. gr. laga um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum þar sem segir að auglýsingar skuli miðast við að börn sjái þær og heyri en megi á engan hátt misbjóða þeim. Einnig segir að í auglýsingum verði að sýna sérstaka varkárni vegna trúgirni barna og unglinga og áhrif þeirra á þau.

Margir eru að velta þessum málum fyrir sér. Það gera talsmaður Neytendastofu, forstjóri Lýðheilsustöðvar, umboðsmaður barna og menntamálaráðherra sem tekur undir það að taka þurfi á þessu. Ég fagna vitundarvakningu í þessa veru í samfélaginu og fagna umræðunni því hún er mjög brýn ef við eigum ekki að sitja uppi með stóran og mikinn vanda í framtíðinni í ljósi þess hve offituvandinn er að verða mikill og mikil byrði á heilbrigðiskerfinu fyrir utan það að þetta rýrir lífsgæði þeirra sem verða offitunni að bráð, ef svo má segja.

Ég vonast til þess að þetta mál fái afgreiðslu úr heilbrigðis- og trygginganefnd sem ég legg til að tillögunni verði vísað til að lokinni þessari umræðu og menn reyni að komast að samkomulagi um að beina ekki auglýsingum að börnum og alls ekki ruslfæðisauglýsingum eða auglýsingum á óhollu mataræði. Ég vil að þær verði gerðar útlægar úr sjónvarpi á þeim tíma sem börn horfa mest á þessa miðla.