132. löggjafarþing — 73. fundur,  22. feb. 2006.

Takmörkun auglýsinga á óhollri matvöru.

162. mál
[15:15]
Hlusta

Flm. (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Mig langaði aðeins að bæta við, þar sem ég hafði notað tíma minn til fullnustu áðan, og um leið þakka hv. þm. Hlyni Hallssyni fyrir góðar undirtektir við þetta mál.

Mig langaði að nefna það hér að þegar ég var að vinna þessa tillögu þarsíðasta haust fór ég að kynna mér hversu mikið er af auglýsingum á óhollustu á tímum sem börn eru að horfa á sjónvarpið. Það kom mér mjög á óvart að nánast inni í barnaefninu var verið að beina óhollustu að börnum og jafnvel þeim yngstu. Eftir að hafa fylgst með því sá ég náttúrlega hve brýnt er að taka á þessu.

Aftur á móti vil ég fagna þeirri vakningu sem hefur orðið í barnatímunum sem varðar hvatningu til hollustu þar sem börn hafa verið hvött til að borða grænmeti og ávexti og slíka vöru. Það tel ég vera af hinu góða.

Hæstv. menntamálaráðherra lýsti því yfir í umræðum að ef ekki næðist samkomulag um að takmarka þessar auglýsingar gæti verið þörf á því að fara lagaleiðina. Ég er sammála henni í því að það verði ekki fyrr en í fulla hnefana að við setjum lög um þetta. En ég vil nefna það hér að það getur vel verið að við fáum tilskipun frá Evrópusambandinu. Evrópusambandið hefur lýst því yfir að það þurfi jafnvel að setja tilskipun um þetta ef þjóðir Evrópuríkjanna bregðast ekki við.

Ég heyrði á hæstv. menntamálaráðherra á þessum tíma að í gangi væri rannsókn hjá útvarpsréttarnefnd og verið væri að gera úttekt á auglýsingum í sjónvarpi og kanna sérstaklega hvað verið er að auglýsa og hvenær. Það er sérstaklega skoðað hvað verið er að auglýsa í kringum barnatíma í sjónvarpi og hversu mikið er auglýst. Ég fagna því og vonast til að þær upplýsingar verði komnar fram í byrjun næsta mánaðar en þá efnir umboðsmaður barna til umræðu um málið. Ég vonast til að þá sjái menn svart á hvítu hvernig landið liggur í þessum efnum. Þá getum við tekið fastar á hlutunum og farið í þá vinnu sem við leggjum hér til.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa þessa ræðu lengri en vonast til þess enn og aftur að við verðum ekki eftirbátar annarra þjóða í þessum efnum. Danir, Norðmenn og Svíar hafa tekið á þessu og sett reglur um verulega takmörkun á auglýsingum á óhollustu sem beinast að börnum. Bretar og fleiri þjóðir eru með slíka reglusetningu eða regluverk í farvatninu. Ég vonast svo sannarlega til þess að við verðum ekki eftirbátar þeirra. Ég vil einnig koma því á framfæri að það væri mjög verðugt verk fyrir nefnd hæstv. forsætisráðherra, sem er að skoða og vinna úr þingsályktunartillögunni frá heilbrigðis- og trygginganefnd sem við samþykktum síðasta vor, að skoða þetta. Þetta er nefnilega mjög stór þáttur í þeim vanda sem við stöndum frami fyrir, þeim heilsufarslega vanda sem er að verða plága í hinum vestræna heimi.