132. löggjafarþing — 73. fundur,  22. feb. 2006.

Starfskjör launafólks og skyldutrygging lífeyrisréttinda.

171. mál
[15:20]
Hlusta

Flm. (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Það frumvarp sem ég mæli fyrir var flutt á 131. löggjafarþinginu af þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs eins og reyndar núna en þá var það Atli Gíslason, hv. varaþingmaður, sem var 1. flutningsmaður málsins.

Frumvarpið snýr að réttarkjörum erlendra verkamanna sem koma hingað til lands og er um að ræða breytingu á lögum nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, með síðari breytingum. Frá því að þetta frumvarp var lagt fram hafa verið samþykkt lög frá Alþingi um starfsmannaleigur. Það frumvarp var samþykkt 9. desember þannig að að sumu leyti hafa náðst þau markmið sem tillögusmiðir þessa frumvarps vildu ná fram en þó ekki að öllu leyti. Ég ætla að gera grein fyrir þeim breytingum sem við leggjum til og vísa þá jafnframt í lögin um starfsmannaleigur og hvað það er þar sem við teljum vera ábótavant.

Reyndar er það svo með lögin um starfsmannaleigur að þau urðu til eftir mjög erfiðar fæðingarhríðir, allt frá því hæstv. félagsmálaráðherra var hvattur til að endurskoða lög til að styrkja réttarstöðu erlends launafólks sem hingað kemur. Hæstv. ráðherra setti niður nefnd í ágústlok árið 2004 og það var ekki fyrr en haustið 2005 að frumvarpsdrögin voru kynnt í þinginu. Eins og fram kom við umræðuna í nóvember og desember þá höfðum við úr stjórnarandstöðunni sitthvað við lögin að athuga þótt við værum öll sammála um að þau væru mikilvægt skref fram á við og í sjálfu sér fagnaðarefni. Hins vegar teljum við að það hefði þurft að ganga lengra.

En samkvæmt frumvarpi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs er gerð tillaga um að viðbót verði gerð við 1. gr. laga um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda en lagagreinin er núna svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Laun og önnur starfskjör, sem aðildarsamtök vinnumarkaðarins semja um, skulu vera lágmarkskjör, óháð kyni, þjóðerni eða ráðningartíma fyrir alla launamenn í viðkomandi starfsgrein á svæði því er samningurinn tekur til. Samningar einstakra launamanna og atvinnurekenda um lakari kjör en hinir almennu kjarasamningar ákveða skulu ógildir.“

Hér viljum við láta bæta við þessa grein eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Ákvæði laganna gilda um alla erlenda launamenn sem starfa hér á landi, hvort sem er á vegum íslenskra eða erlendra atvinnurekenda, starfsmannaleigna eða hliðstæðra fyrirtækja.“

Með þessari grein eru tekin af öll tvímæli um að laun og önnur starfskjör sem aðildarsamtök vinnumarkaðar semja um skulu vera lágmarkskjör fyrir alla erlenda launamenn sem starfa á Íslandi, einnig þá sem starfa á grundvelli leigu- eða þjónustusamninga starfsmannaleigna og að lög nr. 55/1980 taki til þeirra í einu og öllu. Leigusamningar, þjónustusamningar og aðrir samningar um lakari ráðningarkjör en hinir almennu kjarasamningar ákveða skulu og gildir.

Síðan er það 2. gr. okkar frumvarps en þar er gerð tillaga um breytingar á 2. gr., þ.e. lagatæknilegir hnökrar eru á frumvarpinu að því leyti að hér er lagt til að 2. gr. orðist sem segir í okkar frumvarpi en hér mun vera um að ræða viðbót við 2. gr. starfskjaralaganna. En í þessari viðbót er lagt til eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Fyrirtækjum skv. 2. mgr. 1. gr. og atvinnurekendum sem nýta sér þjónustu þeirra er skylt að veita trúnaðarmönnum stéttarfélaga aðgang að ráðningarsamningum og upplýsa um launakjör viðkomandi launamanna.“

Við teljum það vera algert lykilatriði að trúnaðarmenn stéttarfélaganna fái aðgang að ráðningarsamningum og kjörum erlendra starfsmanna sem hér eru starfandi, hvort sem það er á vegum starfsmannaleigna eða ekki. Við teljum að trúnaðarmenn stéttarfélaganna eigi að hafa beinan aðgang að slíkum upplýsingum.

Í lögum um starfsmannaleigur, sem áður er vísað til og samþykkt voru síðasta haust, er kveðið á um upplýsingar í þágu eftirlits í 10. gr. Þar segir, með leyfi forseta:

„Starfsmannaleiga skal veita Vinnumálastofnun þær upplýsingar er stofnunin telur nauðsynlegar til að fylgjast með framkvæmd laga þessara, þ.m.t. um ráðningarsamninga og ráðningarkjör. Starfsmönnum Vinnumálastofnunar er óheimilt að nota aðstöðu sína til að afla sér annarra upplýsinga um starfsemina en þeirra sem eru nauðsynlegar eða kunna að vera nauðsynlegar í þágu eftirlitsins. Enn fremur er þeim óheimilt að láta öðrum í té upplýsingar um starfsemina, starfsmenn eða aðra aðila, ef þeir hafa fengið vitneskjuna vegna starfa sinna og ástæða er til að ætla að henni skuli haldið leyndri.“

Hér eru, eins og heyra má, alls kyns girðingar og takmarkanir en það sem skiptir máli er að það er Vinnumálastofnun sem á að hafa milligöngu. Það er henni sem á að veita þessar upplýsingar en ekki trúnaðarmönnum stéttarfélaganna beint eins og eðlilegt hefði verið. Mikið var rætt um það í meðferð málsins í nefnd og á Alþingi einnig að svo yrði búið um hnúta að stéttarfélögin og trúnaðarmenn þeirra fengju aðgang að þessum upplýsingum en þá spyr ég, og einnig var spurt við umræðuna þá: Hvers vegna ekki að tryggja það beint með lögum að trúnaðarmennirnir hafi aðgang að þessum upplýsingum? Það er hið eðlilega ráðslag og við gerum um það tillögu í okkar frumvarpi.

Síðan er kveðið á um sektir og miskabætur í 3. gr. okkar frumvarps en þar segir, með leyfi forseta:

„Brot gegn lögum þessum varða sektum og dæma má þeim miskabætur sem misgert er við.“ Í greinargerð eða athugasemdum með þessari grein segir, með leyfi forseta: „Mælt er fyrir um sekta- og miskabótaheimildir. Gert er ráð fyrir að sektum verði beitt ef brot eru alvarleg eða ítrekuð og þeir launamenn sem lögin eru brotin á geti krafist miskabóta. Það er lagt í vald dómstóla að ákveða hvenær rétt sé að verða við kröfum um miskabætur og fjárhæð þeirra eftir eðli máls hverju sinni.“

Í lögunum um starfsmannaleigur er kveðið á um sektir, þ.e. heimild til sekta, í 13. gr. en þar segir, með leyfi forseta:

„Brot gegn lögum þessum eða reglugerðum settum samkvæmt þeim varða sektum nema þyngri refsing liggi við að öðrum lögum.“

Síðan er kveðið á um hvert sektirnar skuli renna og reglugerðarákvæði sem skuli sett. En þarna er sem sagt munurinn á gildandi lögum og þeim tillögum sem við leggjum fram að auk sekta viljum við hafa möguleika fyrir dómstóla til að ákvarða launafólki sem lögin eru brotin á miskabætur. Við viljum ekki eingöngu halda okkur við sektirnar.

Hæstv. forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa um þetta lengra mál. Ég held að öll meginsjónarmið hafi komið fram í rökstuðningi mínum fyrir þessu frumvarpi. Ég vona að það fái góða umfjöllun í félagsmálanefnd en ég vænti þess að því verði vísað þangað að lokinni þessari umræðu.