132. löggjafarþing — 73. fundur,  22. feb. 2006.

Starfskjör launafólks og skyldutrygging lífeyrisréttinda.

171. mál
[15:30]
Hlusta

Pétur Bjarnason (Fl):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að setja á langa ræðu um þetta frumvarp sem er samt hið besta mál. Ég vil fyrst og fremst vekja athygli á því hve nauðsynlegt er að tryggja erlendu verkafólki þau réttar- og starfskjör sem bjóðast hérlendis. Þó að mælendaskrá sé ekki löng nú vil ég minna á að fyrr í dag fór fram umræða um þessi mál. Mjög margir sem þar töluðu ræddu einmitt um þá virðingu sem þarf að sýna erlendu fólki sem kemur hingað til að taka þátt í þjóðfélaginu, til að taka þátt í störfum okkar og vinna þau. Ég vísa til þeirrar umræðu allrar til rökstuðnings því sem hér er sett fram.

Hv. 1. flutningsmaður, Ögmundur Jónasson, gerði ljómandi góða grein fyrir og færði öll þau rök sem ég tel þurfa fyrir þessu frumvarpi til laga. En ég vildi aðeins koma hérna upp til að styðja þetta mál og líka til að benda á að það hefur verið dregið í efa að erlendu fyrirtækin mörg hver sem flytja hingað fólk og starfsmannaleigur gæti réttar þessa fólks. Okkur ber að standa vörð um að Ísland sé ekki staður þar sem hægt sé að flytja inn fólk til að brjóta á rétti þeirra í störfum eða á annan hátt og þess vegna held ég að hér sé um að ræða mjög þarft mál.