132. löggjafarþing — 73. fundur,  22. feb. 2006.

Starfskjör launafólks og skyldutrygging lífeyrisréttinda.

171. mál
[15:32]
Hlusta

Valdimar L. Friðriksson (Sf):

Frú forseti. Ég fagna þessu frumvarpi um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda sem hv. þm. Ögmundur Jónasson hefur lagt fram fyrir hönd Vinstri grænna. Eftir að lög um starfsmannaleigur voru sett í desember sl. má segja að örlítið hafi róast á markaðnum. Fyrirrennari þess frumvarps sem hér er lagt fram er frumvarp sem hv. varaþingmaður Atli Gíslason lagði fram og má kannski segja að það frumvarp hafi hrundið þessu af stað. Það hafa verið mikil átök á markaði þar sem starfsmannaleigur hafa verið að flytja inn erlenda starfsmenn eða erlenda verkamenn og ætti öllum hér inni að vera orðið kunnugt um þau.

Lög um starfsmannaleigur hafa greinilega haft einhver áhrif en hér eru viðbætur sem ég tel mjög þarfar og eins og kom fram áðan hjá hv. þm. Pétri Bjarnasyni er samþykkt þessa frumvarps að hluta til gerð til að sýna útlendingum virðingu, því það er nú þannig að við þurfum á þeim að halda sérstaklega á þeim hagvaxtartímum sem hér eru í gangi. Samþykkt þessa frumvarps mundi bæta stöðu launamanna og ég ætla að leyfa mér að doka sérstaklega við viðbót við 2. gr. laga nr. 55/1980, varðandi trúnaðarmenn. Það er rétt sem kom fram hjá frummælanda að varðandi starfsmannaleigur er einungis skylt að sýna Vinnumálastofnun alla ráðningarsamninga en ég verð að taka undir nauðsyn þess að trúnaðarmenn hafi fullan og frjálsan aðgang að ráðningarsamningum. Við höfum oft orðið vitni að því í gegnum fjölmiðla að trúnaðarmenn, t.d. við virkjunarframkvæmdir á Kárahnjúkum hafa þurft að standa þar í ströngu til að verja hag erlendra launamanna og þar af leiðandi verja hag allra launamanna í þjóðfélaginu því ef fyrirtæki fara að taka upp á því að greiða erlendum verkamönnum lægri laun en samningar kveða á um varðandi lágmarkskjör, þá bitnar það að sjálfsögðu á öllum launamönnum á einn eða annan hátt fyrr eða síðar. En í greinargerðinni segir, með leyfi forseta:

„Einnig er lögfesting frumvarpsins til þess fallin að tryggja samkeppnisstöðu atvinnurekenda.“

Þetta er ekki bara spurning um sjálfan launþegann, þetta er spurning um atvinnurekendur líka, þ.e. að þeir sem flytja inn erlenda verkamenn séu ekki að brjóta lög um réttindi og lágmarkslaun og þar af leiðandi að gera sig samkeppnishæfari á markaðnum en þau fyrirtæki sem einungis nota íslenska starfsmenn. Það er nauðsynlegt að hafa málefni varðandi starfskjör launafólks og erlenda starfsmenn skýr og alveg á hreinu, sérstaklega í jafnmiklum uppvexti og nú er í gangi. Það er mín skoðun að þegar lögin um starfsmannaleigur voru samþykkt í desember þá hafi alls ekki verið gengið nógu langt. Þau eru í raun byrjun á því sem koma skal eða á því sem þarf að taka á. Ég tel að þetta frumvarp sé stór þáttur í að tryggja að bæði skipulag og leikreglur á vinnumarkaði séu áfram friðsamlegar því þær hafa í raun og veru verið tiltölulega friðsamlegar síðustu áratugina og það er ekki síst launþegahreyfingunni sjálfri, stéttarfélögum að þakka og þess vegna er það afar brýnt að lögin og reglurnar séu skýrar þannig að starfsmannaleigur og/eða viðskiptaaðilar þeirra fyrirtækja séu ekki að brjóta á réttindum erlendra starfsmanna.