132. löggjafarþing — 74. fundur,  23. feb. 2006.

Varamenn taka þingsæti.

[10:31]
Hlusta

Forseti (Sólveig Pétursdóttir):

Í morgun bárust þær óvæntu fréttir að Hjálmar Árnason, formaður þingflokks framsóknarmanna, hefði veikst snögglega í nótt og verið fluttur í sjúkrahús. Nú, áður en þingfundur hófst, var líðan hans góð, að sögn aðstandenda, og góðar horfur um bata en fyrirsjáanlegt er að hann verður fjarverandi um nokkurra vikna skeið frá þingstörfum.

Héðan frá Alþingi eru honum sendar góðar kveðjur með ósk um skjótan bata.

Af þessum ástæðum ritaði varaformaður þingflokks framsóknarmanna, Magnús Stefánsson, mér í morgun á þessa leið:

„Þar sem Hjálmar Árnason, 6. þm. Suðurk., dvelst nú á sjúkrahúsi vegna veikinda og mun ekki geta sótt þingfundi næstu vikur óska ég eftir því, með vísan til 2. mgr. 53. gr. þingskapa, að 1. varamaður á lista Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi, Ísólfur Gylfi Pálmason sveitarstjóri, taki sæti hans á Alþingi á meðan.“

Ísólfur Gylfi Pálmason hefur áður tekið sæti á Alþingi á kjörtímabilinu og er boðinn velkominn til starfa að nýju.