132. löggjafarþing — 74. fundur,  23. feb. 2006.

Fjárhagsvandi Háskólans á Akureyri.

[10:37]
Hlusta

Hlynur Hallsson (Vg):

Frú forseti. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs fórum með utandagskrárumræður strax í upphafi þings í haust þar sem fjárhagsvandi Háskólans á Akureyri var einmitt ræddur. Þar vöruðum við mjög við ástandinu. Það liggur fyrir að það þurfi að skerða námsframboð við háskólann, það þarf að takmarka enn frekar inngöngu nýrra nemenda, það þarf jafnvel að segja upp kennurum og öðru starfsfólki við skólann. Þetta er mjög alvarlegur atburður og nú síðast í fyrradag komu nemendur í háskólanum saman og mótmæltu aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar kröftuglega. Ég veit að hæstv. menntamálaráðherra er velviljaður Háskólanum á Akureyri en það dugar ekki til. Hvar er hæstv. fjármálaráðherra í þessari umræðu? Það vantar nefnilega meira fjármagn til skólans. Háskólinn hefur verið í mikilli og örri uppbyggingu, miklum vexti en sá vöxtur hefur verið stöðvaður vegna þess að ekki kemur nægt fé til skólans.

Síðan má nefna annað dæmi, nefnilega rannsóknarhús háskólans, sem illu heilli var byggt í einkaframkvæmd og er í einkarekstri. Það þýðir að leigan sem háskólinn þarf að borga fyrir húsnæðið er þrisvar sinnum hærri en gerist og gengur með sambærilegt húsnæði á Akureyri og skólinn greiddi áður. Þetta er mjög alvarlegt mál og þarna þarf ríkið að koma inn aftur og rétta hlut háskólans. Kröfur háskólastúdenta og kennara eru réttmætar og við viljum sjá aukin framlög til háskólans. Á það höfum við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs lagt áherslu, bæði við gerð fjárlaga og í umræðum hér á þinginu og það munum við gera áfram.