132. löggjafarþing — 74. fundur,  23. feb. 2006.

Fjárhagsvandi Háskólans á Akureyri.

[10:40]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Það er mikilvægt að taka upp málefni Háskólans á Akureyri innan sala Alþingis, rétt eins og mikil umræða hefur verið um þau í þjóðfélaginu að undanförnu. Hæstv. menntamálaráðherra benti á það áðan að fjöldi nemenda frá árinu 2000 hefur meira en tvöfaldast þannig að stjórnarmeirihlutinn hefur staðið á bak við Háskólann á Akureyri á undanförnum árum. Við horfum til þess að árlega á næstu árum mun nemendum við Háskólann á Akureyri fjölga um 7%.

Við lokum ekkert augunum fyrir því, meiri hlutinn hér á Alþingi, að það þarf að standa vörð um þessa merku stofnun sem skiptir Eyjafjörð og Akureyringa svo miklu máli og landsbyggðina alla. Þess vegna sagði ég í lok umræðu um fjárlög á síðasta ári að það yrði að skoða sérstaklega í ár húsnæðismál Háskólans á Akureyri. Fjárlögunum var lokað af minni hálfu a.m.k. með það að framlög vegna húsnæðismála Háskólans á Akureyri yrðu endurskoðuð. Hæstv. menntamálaráðherra gaf út yfirlýsingu þá um að þessi mál yrðu skoðuð.

Við höfum átt gott samstarf við rektor háskólans, m.a. var ég á fundi með honum í síðustu viku ásamt hæstv. forsætisráðherra og hv. þm. Dagnýju Jónsdóttur þannig að við höfum ekki sofið á verðinum í þessu. Ég styð hæstv. menntamálaráðherra í þeirri vinnu sem nú stendur yfir, að bæta Háskólanum á Akureyri upp m.a. háan húsnæðiskostnað.

Við horfum á það til næstu ára að nemendum mun halda áfram að fjölga við Háskólann á Akureyri. Það er mikilvægt að hafa í huga í þessari umræðu vegna þess að Háskólinn á Akureyri hefur byggt upp Akureyri og Eyjafjarðarsvæðið og landsbyggðina alla þar sem meiri hluti nemenda við skólann sest að á landsbyggðinni. Við höfum ekki sofið á verðinum í þessari umræðu og á næstu missirum munum við sjá fram á að Háskólanum á Akureyri verði að verulegu leyti bætt þetta upp.