132. löggjafarþing — 74. fundur,  23. feb. 2006.

Fjárhagsvandi Háskólans á Akureyri.

[10:46]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf):

Frú forseti. Umræðan um Háskólann á Akureyri er ekki ný í þessum sölum en hún er yfirleitt jafnánægjuleg og nú því það er gífurleg samstaða um þessa stofnun. Það virðast allir vilja standa sem best við bakið á henni. Hins vegar er það svo að það hefur staðið á verkum og það er það sem meginmáli skiptir, að aukið fjármagn fáist til stofnunarinnar. Það er óþolandi fyrir stofnun eins og Háskólann á Akureyri sem er í miklum vexti og hefur þá sérstöðu meðal ríkisháskólanna að vera yngstur þeirra og vera sá háskóli sem vex hvað mest að vera stöðugt í fjárhagserfiðleikum. Þess vegna er það fagnaðarefni sem kemur fram í máli hæstv. ráðherra að það sé verið að vinna að því nú sameiginlega með stjórnendum háskólans að taka á málinu og vonandi til framtíðar þannig að ekki þurfi ár eftir ár, eins og verið hefur undanfarin ár, að vera með breytingartillögu við fjárlög sem stjórnarmeirihlutinn fellir jafnharðan. Þannig hefur það verið undanfarin ár og það er sérstakt hjá hv. þm. Halldóri Blöndal að telja það að einhverjir þingmenn Samfylkingarinnar hafi nú á síðustu dögum verið að fá áhuga á þessari stofnun. Hv. þingmaður ætti að fara nokkur ár aftur í tímann, ég þori ekki að fullyrða hversu mörg, en við höfum verið með breytingartillögur við fjárlög um það að auka fjárframlög til Háskólans á Akureyri af þeirri einföldu ástæðu að það hefur ætíð verið þörf á slíku.

Þess vegna tek ég undir með hæstv. ráðherra að það er mikilvægt að nú þegar verið er að vinna að þessum málum finnist lausn til frambúðar. Það er líka ánægjulegt að hæstv. ráðherra komi hér og eyði þeirri sögusögn sem varð til í sérkennilegum Kastljóssþætti fyrir ekki löngu. Þar kom í ljós að svo virtist vera sem tveir hv. þingmenn Framsóknarflokksins í kjördæminu væru búnir að taka málið úr höndum hæstv. ráðherra. Það er ánægjulegt að málið er nú í eðlilegum farvegi og ég tek undir það sem komið hefur fram áður að hæstv. ráðherra hefur allan stuðning þingheims til þess að bæta hag Háskólans á Akureyri.