132. löggjafarþing — 74. fundur,  23. feb. 2006.

Fjárhagsvandi Háskólans á Akureyri.

[10:55]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir þau svör sem hér hafa verið gefin í þessu máli, það má segja erfiða máli, um leið og ég hvet hæstv. ráðherra til dáða og fagna því sem verið er að gera. Hér kemur fram mikil samstaða þingmanna, samhljómur fyrir því að vinna að þeim vanda sem þarna er þannig að skólinn geti haldið áfram að dafna.

Ég hef átt inni beiðni, virðulegi forseti, um að ræða fjárhagsvanda Háskólans á Akureyri utan dagskrár. En ég vona að ég geti dregið þá umsögn til baka innan skamms. Ég virði þær upplýsingar sem ég hef fengið frá hæstv. menntamálaráðherra um að það þurfi að gefa þessu aðeins meiri tíma, m.a. vegna þess að hún þarf að taka á sig önnur störf af hendi ríkisstjórnar (Gripið fram í.) og ég endurtek það að ég vona að ég geti dregið þá umsögn til baka og að lausn finnist á málum skólans.

Ég vil líka segja það, virðulegi forseti, að ég tel það ákaflega mikilvægt að Háskólinn á Akureyri verði ekki pólitískt bitbein milli flokka og ekki heldur milli stúdenta. Þegar ég segi þetta kann ég því illa og tel að það sé málinu ekki til framdráttar þegar hv. þingmaður kemur í 1. persónu tal um þetta mál eins og við hlustuðum á í Kastljósi.

Ég ítreka það, virðulegi forseti, að ég þakka ráðherra fyrir að hafa upplýst þingið um þessa vinnu og það er gott að það komi fram að það er unnið að þessu máli og aðalatriðið er að hér er mikill samhljómur og stuðningur við þetta verk og ráðherrann á að hafa það í farteski sínu í umræðum við hæstv. fjármálaráðherra og forsætisráðherra og ríkisstjórnina alla.