132. löggjafarþing — 74. fundur,  23. feb. 2006.

Skólamáltíðir.

[10:59]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Skólamáltíðir hafa verið töluvert í umræðunni í vetur og ekki að ástæðulausu. Þjóðir hins vestræna heims standa nú frammi fyrir nýrri heilbrigðisvá, svokölluðum lífsstílssjúkdómum, sem á eftir að kosta líf og heilsu milljóna manna auk mikils kostnaðar, sérstaklega í heilbrigðisþjónustunni.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur samþykkt áætlun um aðgerðir til að snúa þessari þróun við. Aðgerðirnar ná til margra þátta sem saman geta leitt til betra mataræðis og hreyfingar og m.a. námsárangurs.

Rannsóknir hafa leitt í ljós að mataræði og matarvenjur á unga aldri hafa áhrif allt lífið. Því eru skólamáltíðir allt frá leikskóla og upp í framhaldsskóla mikilvægur þáttur í því að móta einstaklinginn og stuðla að hollari lífsstíl. Börn sem borða holla og góða skólamáltíð eru úthaldsmeiri, hafa betri einbeitingu í tímum og eru rólegri. Skólabragurinn verður því allur annar þar sem börnum og unglingum líður betur, þar er betra kennsluumhverfi og minna ber á óæskilegri hegðun, svo sem einelti.

Þetta er þáttur sem nágrannaþjóðir okkar hafa tekið inn í menntastefnu sína eða eru nú að vinna markvisst að. Fremstir standa Finnar, sem hafa boðið upp á ókeypis skólamáltíðir allt frá árinu 1948, og Svíar, sem tóku upp ókeypis skólamáltíðir síðar. Til reynslu þessara þjóða er nú horft við mótun heildstæðrar mennta- og uppeldisstefnu, m.a. í Noregi. Norðmenn vinna núna markvisst að því að kynna sér árangur Finna og unnið er að þessu máli bæði á norska þinginu og í norska menntamálaráðuneytinu.

Inn í þessa heildarmynd þarf að taka allt skólasviðið, allt frá leikskólum og upp í framhaldsskóla. Hér á landi bjóða flestir leikskólar upp á gott fæði en tekið er gjald bæði fyrir kennslu og fæði, mismunandi eftir sveitarfélögum eins og fram kom í þættinum Kastljósi í gærkvöldi. Nokkur sveitarfélög eru að endurskoða gjaldskrána og stefna jafnvel á gjaldlausa leikskóla. Stefna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs er alveg skýr í þessu máli, samanber þingsályktunartillögu um gjaldfrjálsan leikskóla sem liggur fyrir þinginu.

Eftir einsetningu grunnskólanna urðu sveitarfélögin að bregðast við breyttum aðstæðum fjölskyldna og bjóða nú flest upp á skólamáltíðir. Þær eru mjög mismunandi eftir skólum, bæði að innihaldi, hvernig þær eru bornar fram, tímalengd hádegishlésins og síðast en ekki síst hve mikið skólarnir leggja upp úr því að umhverfið sé vistlegt og rólegt eða hvaða möguleika þeir hafa á því að bjóða upp á heimilislegt umhverfi. Skólamáltíðirnar eru einnig misdýrar eins og fram kom Í Kastljóssþættinum í gærkvöldi.

Gjald fyrir mataráskrift í grunnskólunum er frá tæpum 4 þús. kr. upp í 6 þús. kr. Nýting mataráskrifta var síðast könnuð í Reykjavík veturinn 2003–2004 en þá nýttu að jafnaði tæp 70% nemenda sér hádegismatinn í skólunum. Hvers vegna var þátttakan ekki meiri? Fóru nemendur heim í hádeginu eða út í sjoppu eða borðuðu bara ekki neitt eða höfðu foreldrarnir ekki efni á því að kaupa mataráskrift? Hér þarf að kanna betur hvernig staðið er að skólamáltíðunum og hvers vegna nemendur nýta sér þær ekki.

Framhaldsskólanemar þurfa ekki síður á staðgóðum hádegisverði að halda. Mikið vantar upp á að nemendur allra framhaldsskóla geti snætt næringarríkan mat á skólatíma. Nemendaráðin eru dugleg að halda uppi sölu í skólunum en það getur aldrei verið góður málsverður. Matmálstímar verða að vera eðlilegur þáttur í skólastarfinu allt frá leikskólunum og upp í framhaldsskólana. Safna þarf upplýsingum, það þarf að kortleggja og meta þjóðfélagsleg áhrif skólamáltíðanna, þ.e. að kanna markvisst hvaða áhrif skólamáltíðirnar hafa haft í Finnlandi og Svíþjóð.

Því vil ég spyrja hæstv. menntamálaráðherra hvort verið sé að skoða þessa hlið menntastefnunnar, þ.e. heildstæða sýn að betri námsárangri, betri líðan nemenda og minni kostnað innan skóla- og heilbrigðiskerfisins með ókeypis skólamáltíðum.