132. löggjafarþing — 74. fundur,  23. feb. 2006.

Skólamáltíðir.

[11:12]
Hlusta

Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Það er margt merkilegt rætt á hinu virðulega Alþingi. Fyrir liggur að skólamáltíðir eru mikilvægar og að reglulegar og hollar máltíðir skipta miklu fyrir velferð barna. Vilji Alþingis hvað varðar skólamáltíðir hefur verið alveg skýr og nægir að benda t.d. á þingsályktun um manneldis- og neyslustefnu frá 1989 þar sem tilgreint er að börn eigi rétt á málsverði á skólatíma. Hæstv. menntamálaráðherra minntist líka á grunnskólalögin frá 1995 sem eru nánast samhljóða þessari setningu. Enda hafa orðið miklar breytingar á skólamáltíðum síðan ég var í grunnskóla fyrir 15–20 árum, í raun má segja að gjörbylting hafi orðið. Þá var ekki óalgengt að hádegismatur minn og samnemenda minna væri hvítt formbrauð og við pössuðum okkur á að borða bara innan úr því. Nú þykir sjálfsögð krafa að nemendur eigi kost á hollum mat í hádeginu, grænmeti og ávöxtum ásamt góðri, íslenskri mjólk, léttmjólk, og köldu vatni í nestistímanum.

Þessar miklu breytingar hafa ekki síst orðið frá því að sveitarfélögin tóku við rekstri skólanna. Skólamáltíðir í grunnskólum eru nefnilega málefni sveitarfélaganna. Reykjavíkurborg, Árborg, Hornafjörður, Grundarfjörður og Siglufjörður eru dæmi um nokkur sveitarfélög sem bjóða upp á heitar máltíðir í skólum sínum á meðan önnur sveitarfélög eru komin styttra á leið.

Að mínu mati verða sveitarfélög að fá tíma og ráðrúm til að þróa og byggja sjálf upp þessa þjónustu hjá sér, á sínum hraða og miðað við það fjármagn sem þau hafa til ráðstöfunar. Því getur hið virðulega Alþingi, að mínu mati, ekki gert meiri kröfur til sveitarfélaganna án þess að með fylgi aukin fjárframlög frá ríkinu. Samkvæmt yfirlýsingum stjórnarandstæðinga um ríkisfjármál í gær tel ég alveg ljóst að vilji þeirra stendur ekki til frekari fjárútláta á vegum ríkissjóðs á næstunni.