132. löggjafarþing — 74. fundur,  23. feb. 2006.

Skólamáltíðir.

[11:21]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf):

Frú forseti. Það eru margar hliðar á skólastarfinu, skólamáltíðir eru að sjálfsögðu hluti þess. Rétt er að vekja athygli á því sem fram hefur komið í umræðunni að þar hefur orðið gífurleg breyting á undanförnum árum. Það hefur aukist mjög að boðið sé upp á skólamáltíðir og sú breyting hefur fyrst og fremst orðið eftir að sveitarfélögin tóku við rekstri grunnskólans. Það er enn eitt dæmi þess og sannar það hversu mikilvægt það skref var að færa grunnskólana yfir til sveitarfélaganna vegna þess að nú nálgumst við það göfuga markmið að gera þá að heilsdagsskóla. Vonandi styttist í það að við getum líka tengt tómstundastarfið skólunum þannig að nemendur geti farið í skólann á morgnana, líkt og foreldrar til vinnu, og komið síðan heim til sín á svipuðum tíma og séu þá búnir að ljúka bæði skólanámi og tómstundaiðju þannig að fjölskyldan fái betri tíma fyrir sig.

Það vekur að sjálfsögðu upp þá hugsun hver staða barnafjölskyldna sé í samfélaginu. Bent hefur verið á það í umræðunni að auðvitað sé um töluverðan kostnað að ræða sem verður við þessa auknu þjónustu. Það er því eðlilegt að skoða sérstaklega stöðu barnafjölskyldnanna þegar þjónustan vex á þennan hátt. En þetta þarf auðvitað að skoða heildstætt svo það sé tryggt að það gerist aldrei að efnahagur fólks ráði því hvort þessi þjónusta er notuð eða ekki. Þess vegna er eðlilegt að taka undir það sem kom fram hjá hv. þm. Þuríði Backman, og hæstv. ráðherra tók undir, að mál þetta verði kannað sérstaklega. Ég tel mjög mikilvægt að það sé tryggt að efnahagur fólks komi aldrei í veg fyrir að slík þjónusta sé notuð, því það er líka svo að þetta mótar að sjálfsögðu matarvenjur fólks til framtíðar og skiptir því máli. Ég er sannfærður um að þegar þetta hefur þróast í nokkur ár verður það krafa nemenda í hverjum einasta framhaldsskóla að geta gengið að sambærilegri þjónustu og við sjáum nú í leik- og grunnskólum.