132. löggjafarþing — 74. fundur,  23. feb. 2006.

Skólamáltíðir.

[11:25]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin sem ég var nú ekki fyllilega ánægð með að öllu leyti, nema það að ég er mjög ánægð með að endurskoða eigi lögin um leik-, grunn- og framhaldsskóla ef við sjáum þar einhverja heildarsýn og að skólamáltíðir verði teknar þar inn. Það finnst mér mjög mikilvægt. Það er á ábyrgð menntamálaráðherra m.a. að stuðla að því börn fái holla og góða máltíð í skólunum. Það er orðinn heilsdags vinnudagur hjá börnum frá leikskóla og upp í framhaldsskóla. Við erum að berjast við offituvandamál hjá börnum. Við horfum fram á að í nánustu framtíð muni verða hér mikill kostnaður af lífsstílssjúkdómum, sem m.a. Bretar hafa orðið fyrir, fyrr en við, en hafa tekið á í sínum skólum með því að breyta skólamáltíðunum. Þetta er hægt.

Það er ekki að ástæðulausu að Norðmenn líta til Finnlands og Svíþjóðar því að þeir taka fyrirmæli eða ábendingar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar alvarlega. Þeir sjá fram á að ef ekki verður brugðist við á öllum sviðum, ekki bara í heilbrigðisgeiranum heldur á öllum sviðum, muni þeir eins og aðrar þjóðir standa frammi fyrir miklum kostnaði á komandi árum. Við getum gripið inn í. Sá kostnaður sem hið opinbera leggur út skilar sér margfalt til baka. Vissulega eru leikskólarnir og grunnskólarnir á ábyrgð sveitarfélaganna en það er hægt að gera eins og í Finnlandi, að tryggja sveitarfélögunum tekjustofna til að standa undir þessum kostnaði. Skólarnir geta verið sjálfstæðir, sveitarfélögin geta verið sjálfstæð og það er hægt að gera þetta með mismunandi hætti en börnin eiga skilyrðislaust að fá góðan mat. Börn þurfa ekki kostnaðarvitund (Forseti hringir.) en þau þurfa hollar skólamáltíðir óháð efnahag foreldra. Allt of mörg þeirra (Forseti hringir.) þurfa að líða fyrir að missa af mörgu, bæði í félagslífi og tómstundum jafnaldranna vegna bágs efnahags foreldra, skólamáltíðir þurfa ekki að bætast við það.