132. löggjafarþing — 74. fundur,  23. feb. 2006.

Samstarf Vestur-Norðurlanda um markmið í fiskveiðimálum.

297. mál
[11:30]
Hlusta

Flm. (Halldór Blöndal) (S):

Frú forseti. Þessi tillögugrein orðast svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar, með hliðsjón af ályktun Vestnorræna ráðsins á ársfundi 2004, að fela ríkisstjórninni, í samvinnu við landsstjórnir Færeyja og Grænlands, að efla samstarf Vestur-Norðurlanda um ýmis markmið í fiskveiðimálum gagnvart Evrópusambandinu.“

Ályktuninni fylgir svohljóðandi greinargerð:

„Tillaga þessi var lögð var fram á 131. löggjafarþingi en varð þá eigi tekin á dagskrá. Tillagan er sett fram á grundvelli ályktunar Vestnorræna ráðsins nr. 2/2004 sem samþykkt var á ársfundi ráðsins 20.–24. ágúst 2004.“

Ályktunin var á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Vestnorræna ráðið mælist til þess að ríkisstjórn Íslands og landsstjórnir Færeyja og Grænlands beiti sér fyrir aðgerðum sem hafi þann tilgang að efla samstarf Vestur-Norðurlanda varðandi ýmis úrlausnarefni í tengslum við stefnu í fiskveiðimálum gagnvart Evrópusambandinu. Ekkert Vestur-Norðurlanda er aðili að Evrópusambandinu. Löndin eru þó öll tengd sambandinu: Grænland fyrir tilstilli fyrirkomulags Evrópusambandsins um lögsögur handan hafsins, Ísland með aðild að EES-samningnum og Færeyjar með viðskiptasamningi við sambandið. Sögulega hafa Vestur-Norðurlönd verið háð fiskútflutningi og svo er enn. Löndin hafa í dag enga sameiginlega stefnu gagnvart Evrópusambandinu á sviði fiskveiðimála. Vestur-Norðurlönd verða í þessu samhengi að leitast við að setja fram sameiginleg viðhorf í fiskveiðimálum sem setja má fram í sameiningu gagnvart framkvæmdastjórninni. Með því að setja fram sameiginleg sjónarmið á sviði fiskveiðimála er hugsanlegt að Vestur-Norðurlönd geti aukið líkur á að hafa áhrif innan Evrópusambandsins. Að öðrum kosti sjá Vestur-Norðurlönd líklega fram á það að sjónarmið þeirra á sviði fiskveiðimála verði undir og framsæknari óskir Evrópusambandsins og þarfir þess að tryggja samevrópskri stefnu í fiskveiðimálum viðgang ráði för. Horfast verður í augu við það að þær ákvarðanir sem teknar eru í Evrópusambandinu varðandi fiskveiðar hafa víðtækar afleiðingar fyrir Vestur-Norðurlönd. Einnig er mikilvægt að Evrópusambandið viðurkenni verðmæti og möguleika þeirrar sérstöku vitneskju um sjávarútveg sem er að finna á Vestur-Norðurlöndum. Hvað varðar stefnu í fiskveiðimálum og útflutning fiskafurða hafa Vestur-Norðurlönd og Evrópusambandið margt að bjóða hvert öðru. Vestur-Norðurlönd eiga þess vegna í sameiningu að leitast við að hafa áhrif á þær ákvarðanir sem teknar eru innan Evrópusambandsins og skipta máli varðandi sjávarútveg á Vestur-Norðurlöndum til hagsbóta fyrir lönd okkar og viðgang og afkomu fiskveiða okkar. Með því að standa saman og eftir því sem unnt er að tala einni röddu gætu Vestur-Norðurlönd náð fram markmiðum sínum og óskum varðandi stefnu í fiskveiðimálum.“

Ég sé, frú forseti, ekki ástæðu til að fjölyrða um greinargerðina sem tillögunni fylgir. Ég hef tekið þetta mál upp við hæstv. sjávarútvegsráðherra og legg til að málinu verði vísað til síðari umræðu og utanríkisnefndar.