132. löggjafarþing — 74. fundur,  23. feb. 2006.

Samstarf Vestur-Norðurlanda um markmið í fiskveiðimálum.

297. mál
[11:39]
Hlusta

Hlynur Hallsson (Vg):

Frú forseti. Ég fagna þessari tillögu til þingsályktunar um samstarf Vestur-Norðurlandanna um markmið í fiskveiðimálum gagnvart Evrópusambandinu. Ég held að það sé afar mikilvægt fyrir þessar þrjár þjóðir að þær komi saman og tali með einni röddu gagnvart Evrópusambandinu. Ég held einmitt að þetta samstarf og kröfur okkar geti nýst okkur til að halda okkur utan við Evrópusambandið sem lengst.

Þessar þjóðir byggja afkomu sína að verulegu leyti á útflutningi sjávarafurða og svo mun verða áfram í ókominni framtíð þó að það sé að einhverju leyti að breytast. Þess vegna er þetta vestnorræna samstarf einmitt mjög mikilvægt, jákvætt og gott. Það væri mjög til fyrirmyndar ef ríkisstjórnin kæmi sér saman við landstjórnir Færeyja og Grænlands um að efla þetta samstarf um ýmis markmið í fiskveiðimálum. Ég held að það yrði til mikilla bóta og okkur til framdráttar.