132. löggjafarþing — 74. fundur,  23. feb. 2006.

Samstarf Vestur-Norðurlanda um markmið í fiskveiðimálum.

297. mál
[11:49]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Ég vil fyrst segja að það er nokkur rangskilningur hjá hv. þm. Halldóri Blöndal að ég taki afstöðu til allra mála út frá því hvort líklegt sé að þau dragi úr sjálfstæði íslensku þjóðarinnar. Svo er ekki. Hins vegar er ég annarrar skoðunar en flestir þingmenn Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna að því leyti til að ég tel ekki að lengur sé til nokkuð sem heitir fullkomið fullveldi þjóðar. Heimurinn er orðinn svo alþjóðlegur að við erum stöðugt að deila fullveldi okkar í gegnum alþjóðlega samninga. Um leið erum við að styrkja þá. Ég tel að þetta sé frekar farsæl þróun í flóknum heimi og styrki sérstaklega litlar þjóðir. Það er langt síðan við fórum inn á þessa braut. Ég minnist þess þegar við gerðum frægan samning um sameiginlegan vinnumarkað á Norðurlöndum að þá fólst auðvitað í því ákveðið afsal á fullveldi því að samhliða samþykkt þess samnings gátum við ekki lengur ráðið för norrænna manna inn á vinnumarkað á Íslandi. En það er aukaatriði við þetta.

Ég tel að þetta sé góð tillaga í fyrsta lagi vegna þess að hún styrkir samstarf þessara þjóða. Ég veit að hv. þm. Halldór Blöndal hefur árum saman verið mjög dyggur talsmaður þess að einmitt þessar þjóðir hafi með sér náið samstarf og hefur átt þátt í að styrkja það. Sjálfur hef ég fylgt honum á för til sumra þessara landa sem beinlínis hafa verið farnar til að efla tengslin.

Í öðru lagi er það líka rétt að þessi tillaga, og þess vegna er hún stuðnings virði, styrkir samningsstöðu þessara þjóða gagnvart Evrópusambandinu ef á þarf að halda. Það er jákvæður þáttur við þessa tillögu.

Í þriðja lagi ef svo ber undir að þessar þjóðir ákvæðu að ganga t.d. sameiginlega inn í Evrópusambandið þá er mjög líklegt að formlegt samstarf þeirra, sem áður hefði þá tekist og reynsla komist á, mundi leiða til þess að sá möguleiki sem hæstv. forsætisráðherra reifaði í frægri Berlínarræðu og Göran Persson hefur seinna sagt að sé gerlegt, verði að veruleika. Sú hugmynd fól það í sér að það yrði sérstakt fiskveiðistjórnarsvæði á Norður-Atlantshafi sem færi að öllu leyti með stjórn fiskveiða sinna, tæki líka ákvarðanir um heildaraflamark. Sumir segja að þetta gangi ekki gagnvart Rómarsáttmálanum. Í honum segir ekkert um sjávarútvegsmál og ég er alfarið þeirra skoðunar eftir samtöl t.d. við Göran Persson og eftir yfirlýsinguna sem hann átti aðild að, að þetta sé mögulegt.

Í fjórða lagi, og það kom ekki fram í máli hv. þingmanns sem hér mælti fyrir tillögunni, þá tel ég líka að þetta samstarf gæti skipt miklu máli varðandi samninga við annað stórveldi á sjávarútvegssviðinu, en það eru Norðmenn.

Hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson hefur stundum tekið upp á liðnum dögum þá staðreynd að norsk-íslenski síldarstofninn er að stækka óðfluga. Nú er síldin þannig fiskur að veiðar úr þeim stofni byggjast á einum einstökum stórum árgangi. Síldarævintýrið mikla sem endaði með hruninu 1967 byggðist nánast alfarið á veiðum úr stórsíld sem var þá, 1967, orðin 14 ára gömul. Það var stóri árgangurinn 1953. Hann stóð undir öllum síldveiðum á Rauða torginu og við Ísland úr norsk-íslenska stofninum í meira en áratug. Núna er að koma fram mjög stór árgangur af síldinni og það er líklegt að á næstu missirum verði framhald af þeirri þróun sem við sáum á síðasta ári. Hún fólst í því að norsk-íslenska síldin tók að leita inn fyrir köldu tunguna sem liggur austur með Íslandi og inn á hin gömlu vetrardvalarsvæði sín á Rauða torginu. Þetta gerir hún einfaldlega vegna þess að hana skortir það sem Þjóðverjar kölluðu einu sinni Lebensraum. Hana skortir svæði til að vaxa á og fitna og afla sér orku til að undirbúa sig fyrir hrygninguna. Þetta þýðir að við munum efalítið lenda í útistöðum við Norðmenn á þessu sviði. Það má segja að þær hafi þegar byrjað. Í þessari viku spunnust umræður vegna þess að einstökum þingmönnum þótti hæstv. sjávarútvegsráðherra sýna óhóflega eftirgjöf í ræðu sem hann flutti í Noregi í upphafi þessara mála. Ég tek ekkert sérstaklega undir það, en rifja upp að það sjónarmið hefur komið fram.

Grænlendingar hafa ekki sérstakra hagsmuna að gæta af síldveiðum svo nokkru nemi. Færeyingar hafa það hins vegar, mjög mikilla. Það er líklegt að sá búhnykkur sem kann að felast í upprisu norsk-íslenska síldarstofnsins verði ekki bara mjög mikilvægur fyrir austurbyggðir Íslands heldur líka Færeyjar allar. Í dag höfum við mikið hagræði af síldveiðum á hinu opna alþjóðlega hafsvæði sem stundum er nefnt Síldarsmugan og höfum m.a. samninga við Færeyinga um það og sömuleiðis um að taka okkar afla innan þeirrar lögsögu og það er gagnkvæmt. Þessar þjóðir hafa því gríðarlega mikla sameiginlega hagsmuni og formlegt samstarf þessara þriggja þjóða á þessu sviði gæti því orðið okkur mikilvæg bjarghella að standa á í samningum við Noreg. Og það er ekki síst þess vegna sem ég tel að þessi tillaga sé allrar athygli verð og hana beri að samþykkja. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að efla samstarf þessara þjóða á fiskveiðisviðinu sökum þessara fjögurra þátta sem ég hef nefnt og ég er viss um að hv. þm. Halldór Blöndal getur verið mér sammála um a.m.k. þrjá þeirra, nema hann sé eitthvað sérstaklega úfinn í dag en mér hefur ekki sýnst það, frú forseti, heldur hefur hann sem jafnan fyrr mjög málefnalegt framlag til þessarar umræðu eins og annarra.