132. löggjafarþing — 74. fundur,  23. feb. 2006.

Rannsóknir á loftslagsbreytingum við Norður-Atlantshaf.

298. mál
[11:57]
Hlusta

Hlynur Hallsson (Vg):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Halldóri Blöndal fyrir snaggaralegan tillöguflutning á þessu ágætismáli og það þarf auðvitað ekki að eyða mörgum orðum í að hlýnun andrúmsloftsins er eitt af brýnum hagsmunamálum og kannski sérstaklega þeirra þriggja landa sem hér er rætt um: Ísland, Grænland og Færeyjar. Því er jafnvel spáð að á næstu tveim öldum muni jökullinn stóri, Grænlandsjökull, hopa mjög mikið og það getur haft afdrifaríkar afleiðingar í för sér fyrir loftslag í öllum heiminum. Þess vegna er mjög mikilvægt að þessar þrjár þjóðir fari í fararbroddi fyrir rannsóknir á þessum loftslagsbreytingum.

Áhrifin á Golfstrauminn sem skiptir okkur auðvitað mjög miklu máli en rannsóknir á honum þarf að efla og í greinargerðinni hér kemur fram að árið 1999 voru tillögur frá Færeyingum um að áætla fé í verkefni og rannsóknir á loftslagsbreytingum. Ég vona að ríkisstjórnin í samvinnu við landsstjórnir Færeyja og Grænlands taki að sér að semja framkvæmdaáætlun um markvisst átak í rannsóknum á loftslagsbreytingum sem við getum þá tekið forustu í.