132. löggjafarþing — 74. fundur,  23. feb. 2006.

Stofnun og fjármögnun vestnorrænna rithöfundanámskeiða.

541. mál
[12:02]
Hlusta

Flm. (Halldór Blöndal) (S):

Herra forseti. Tillögugreinin er svohljóðandi:

„Alþingi ályktar, með hliðsjón af ályktun Vestnorræna ráðsins á ársfundi 2005, að fela ríkisstjórninni, í samvinnu við landsstjórnir Færeyja og Grænlands, að styðja stofnun og fjármögnun vestnorrænna rithöfundanámskeiða.“

Tillaga þessi er sett fram á grundvelli ályktunar Vestnorræna ráðsins nr. 1/2005 sem samþykkt var á ársfundi ráðsins 22.–24. ágúst 2005. Ályktun ráðsins var efnislega á þessa leið:

Vestnorræna ráðið hvetur stjórnvöld á Íslandi, í Færeyjum og á Grænlandi til að styðja stofnun og fjármögnun vestnorrænna rithöfundanámskeiða.

Vestnorrænu löndin eiga sér ríka frásagnarhefð sem hefur verið lykillinn að munnlegri geymd skáldskapar, sagna og sögu þjóðanna ásamt þróun og varðveislu þjóðtungnanna í nútímanum. Ísland hefur löngum verið í fararbroddi Norðurlanda á sviði bókmennta og sögu, en grænlenskir og færeyskir höfundar hafa hins vegar þurft að berjast fyrir að koma undir sig fótunum.

Vestnorrænu löndin hafa á síðustu árum verið dugleg við að skiptast á listrænum viðburðum í tónlist, leikhúsi, myndlist, handverki og fleiru, en á bókmenntasviðinu hafa samskiptin verið minni og almennt hefur rithöfundum og útgáfu ljóða og óbundins skáldskapar í Færeyjum og Grænlandi verið lítill gaumur gefinn undanfarin ár. Efling og styrking bókmennta og rithöfunda sem rita á vestnorrænar tungur er forsenda þess að vestnorrænar þjóðir geti þróað með sér menningu og tungumál og þannig eflist sjálfsmynd þeirra í alþjóðavæddu upplýsingasamfélagi.

Á fundi vestnorrænna rithöfunda nýverið var samþykkt að vinna að stofnun vestnorræns rithöfundaskóla. Þessa hugmynd þarf að styðja með öllum hugsanlegum ráðum og Vestnorræna ráðinu ber að halda áfram þeirri vinnu fyrir vestnorrænar bókmenntir sem hafin var með því að veita Vestnorrænu barna- og unglingabókaverðlaunin. Ekki er nauðsynlegt að koma vestnorrænum rithöfundaskóla á fót sem stofnun með byggingum og yfirstjórn heldur er hægt að skipuleggja hann sem námskeið eða röð námskeiða sem haldin væru í löndunum þremur.

Stofnun vestnorrænna rithöfundanámskeiða gæti orðið til þess að styrkja bókmenntir þjóðanna með því að hjálpa hæfileikaríkum höfundum að stíga sín fyrstu skref og gæti orðið mikilvægur vettvangur vestnorrænum rithöfundum til að skiptast á reynslu og vinnuaðferðum.

Ég legg til, herra forseti, að málinu verði vísað til síðari umr. og utanríkismálanefndar.