132. löggjafarþing — 74. fundur,  23. feb. 2006.

Hafnalög.

380. mál
[12:21]
Hlusta

Frsm. samgn. (Guðjón Hjörleifsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti samgöngunefndar um frumvarp til laga um breytingu á hafnalögum, nr. 61/2003.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ragnhildi Hjaltadóttur, Sigurberg Björnsson og Jóhann Guðmundsson frá samgönguráðuneytinu.

Nefndinni bárust skriflegar umsagnir um málið frá Sambandi sveitarfélaga á Austurlandi, Siglingastofnun Íslands, Byggðastofnun og Hafnasambandi sveitarfélaga.

Núgildandi hafnalög gera ráð fyrir verulegum breytingum á styrkjum til hafna á árinu 2007, samanber bráðabirgðaákvæði II í lögunum. Í frumvarpinu er lagt til að gildistími bráðabirgðaákvæðisins verði framlengdur hvað þetta varðar. Skilyrði fyrir beitingu ákvæðisins eru af tvennum toga. Hið fyrra miðast við hafnir sem af framkvæmdalegum orsökum telja hagfellt að fresta þegar ákveðnum framkvæmdum á samgönguáætlun 2005–2006 til áranna 2007–2008 án þess að styrkhlutfall breytist miðað við þrengri ákvæði nýrra hafnalaga. Seinna skilyrðið snýst um það að heimilt verði að beita þessu ákvæði gagnvart endurskoðun á áformum samgönguyfirvalda um jafnsetningu hafna í framkvæmdalegu tilliti á aðlögunartíma nýrra hafnalaga líkt og bráðabirgðaákvæði II í lögunum gerir beinlínis ráð fyrir. Forsenda þess að hægt sé að beita ákvæðinu er að við gerð samgönguáætlunar 2007–2010 liggi fyrir endurskoðuð áætlun Siglingastofnunar Íslands um jafnsetningu hafna.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Jón Bjarnason sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er hann samþykkur áliti þessu.

Lára Margrét Ragnarsdóttir og Þórunn Sveinbjarnardóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir nefndarálitið rita 15. febrúar 2006: Hjálmar Árnason, Anna Kristín Gunnarsdóttir, Guðjón Hjörleifsson, Kristján L. Möller, Sigurrós Þorgrímsdóttir, Guðjón Arnar Kristjánsson og Magnús Stefánsson.

Virðulegi forseti. Ég legg til að að lokinni 2. umr. verði frumvarpinu vísað til 3. umr.