132. löggjafarþing — 74. fundur,  23. feb. 2006.

Landshlutaverkefni í skógrækt.

555. mál
[13:49]
Hlusta

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Mig langar að spyrja hæstv. landbúnaðarráðherra hvort aldrei hafi komið til tals við undirbúning að samningu þessa frumvarps að færa þessi verkefni undir Skógrækt ríkisins. Nú er verið að búa til verkefni eða tryggja það, verði þetta frumvarp að lögum, að landshlutabundin skógræktarverkefni séu algerlega á hendi og á ábyrgð hæstv. ráðherra. Það er skipað í stjórnir, búnar eru til fimm nýjar þriggja manna stjórnir, hver stjórn ræður til sín starfsmann. Allir þessir starfsmenn heyra undir ráðherra og síðan er ætlast til þess sýnist mér í frumvarpinu að skilað verði skýrslu einu sinni á ári sem Skógrækt ríkisins fer yfir. Hefði ekki verið einfaldara og kannski faglegra í ljósi þess verkefnis sem hér er verið að ræða að tryggja þessu verkefni samastað hjá Skógrækt ríkisins ellegar hjá Skógrækt ríkisins og Landgræðslu ríkisins þegar þær stofnanir hafa verið sameinaðar? Sem vonandi verður og síðar náttúrlega færðar undir umhverfisráðuneytið, það segir sig sjálft, en það verður væntanlega ekki gert með þessu frumvarpi.

Hér er í raun og veru verið að setja þetta verkefni algerlega í hendur ráðherrans, hálfs milljarðs kr. fjárveitingu samkvæmt fjárlögum þessa árs og það verður ekki séð í fljótu bragði að neinir aðrir hafi aðkomu að stjórnun verkefnisins.