132. löggjafarþing — 74. fundur,  23. feb. 2006.

Landshlutaverkefni í skógrækt.

555. mál
[13:51]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil minna hv. þingmann á að skógrækt er um víða veröld landbúnaður, ekki umhverfismál. Vissulega hefði það getað komið til greina að skella öllum þessum verkefnum inn í Skógrækt ríkisins. Staðreyndin er sú að Alþingi hefur tekið þá ákvörðun og ríkisstjórnin að það að planta trjám sé verkefni bænda á Íslandi og eigenda lögbýla. Það er ekki verkefni ríkisins í sjálfu sér. Það er verkefni þeirra sem eiga landið og ábyrgðin er þeirra. Þetta hefur gefist vel að mati manna, áhuginn er mikill eins og ég hef farið yfir. 760 bújarðir eru komnar í slíka samninga og sjá framtíð sína.

Hins vegar er það ljóst í frumvarpinu að Skógrækt ríkisins á mann inni í verkefnunum, sinn fagaðila og verkefnin sækja ráð, kjör og þekkingu til Skógræktar ríkisins. Þarna er því eðlileg brú á milli og mikið samstarf. En ég tel mjög eðlilegt að þetta séu sérstök verkefni gerð með þessum hætti í ljósi þess að Alþingi leggur fram peninga til að búa til nýja auðlind á Íslandi fyrir þjóðina og felur ákveðnum aðilum, sem eru eigendur lögbýlanna, að planta henni í landið.