132. löggjafarþing — 74. fundur,  23. feb. 2006.

Landshlutaverkefni í skógrækt.

555. mál
[13:52]
Hlusta

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Það er auðvitað rétt sem hæstv. landbúnaðarráðherra bendir á að Skógrækt ríkisins á skv. 5. gr. frumvarpsins mann í hverri stjórn. En væri þá ekki ráð að koma því þannig fyrir að a.m.k. önnur ríkisstofnun, Náttúrufræðistofnun, sem m.a. hefur með höndum gerð og rannsóknir vegna gróðurfarskorta og rannsóknir á vistkerfinu, ætti líka mann í slíkri stjórn ef á annað borð á að setja á svona stjórnkerfi yfir þetta? Þó það sé þannig hér að landbúnaðarráðuneytið skilgreini skógræktina kannski meira sem atvinnuveg en náttúruvernd eða umhverfismál þá er þetta auðvitað allt í senn í raun og veru, og mér finnst að gæta þurfi þess að taka tillit til allra sjónarmiða í málinu. Það má ekki bara fara í skógræktina án tillits til vistkerfis, gróðurfarskorta eða annarra umhverfissjónarmiða.