132. löggjafarþing — 74. fundur,  23. feb. 2006.

Landshlutaverkefni í skógrækt.

555. mál
[13:55]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. landbúnaðarráðherra fyrir framsöguna. Ég ætla að spyrja hæstv. ráðherra um það sem kemur fram í 1. gr. að það fjármagn sem á að fara til landshlutabundinna verkefna er ákveðið á fjárlögum hverju sinni. Mikilvægt er að gerð sé áætlun til lengri tíma, tíu ára eins og gert er ráð fyrir í greinargerðinni, og að það standist. Á Alþingi hefur verið samþykkt þingsályktunartillaga um landshlutabundin verkefni, eins og með Héraðsskóga, þar sem fjárframlög voru sett niður til fimm ára en við það hefur ekki verið staðið við afgreiðslu fjárlaga. Því spyr ég hæstv. ráðherra hvort það muni ekki ríkja enn frekari óvissa um framlög til þessara miklu verkefna ef á að treysta á fjárlög hverju sinni, hafa ekki alveg hreint bundinn, niðurnegldan samning.

Ég vil einnig spyrja um skipulagsmál og það sem snýr að sveitarfélögunum þar sem þau hafa ekki aðila í stjórn samkvæmt frumvarpinu. Hvernig koma þessar áætlanir að deiliskipulagi sveitarfélaganna og aðalskipulagi? Hvernig er þetta látið passa saman?

Í þriðja lagi. Var eitthvað rætt um nytjar skógarafurða við vinnslu þessa frumvarps til að auka verðmæti afurðanna sem koma úr nytjaskógunum? Þessi atvinnugrein er nefnilega orðin mjög mikilvæg fyrir fjölda bænda á lögbýlum og mikilvægt að auka verðmæti afurðanna sem koma frá verkefninu.