132. löggjafarþing — 74. fundur,  23. feb. 2006.

Landshlutaverkefni í skógrækt.

555. mál
[14:06]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Svo ég rökstyðji enn betur hve gott nafnið er þá eru Héraðsskógar eins og gaflinn í þessu verkefni. Norðurlandsskógar og Suðurlandsskógar eru síðan sem langar hliðar og síðan hið yndislega nafn Skjólskógar á Vestfjörðum þannig að þetta er allt í samræmi og allir skynja hvert verkefnið er.

Suðurlandsskógar hljóta að vera fyrir sunnan, Norðurlandsskógar fyrir norðan, Héraðsskógar á hinu fallega Fljótsdalshéraði með fjörðunum með og Skjólskógar á Vestfjörðum. Ég er afar stoltur af þessum nöfnum og raunar fastheldinn á þau. Ég vona að ég fái að sannfæra minn ágæta vin, hv. þm. Einar Má Sigurðarson, um að rugla ekki meira í þessum nafngiftum. Þær eru góðar og þær standa.