132. löggjafarþing — 74. fundur,  23. feb. 2006.

Landshlutaverkefni í skógrækt.

555. mál
[14:23]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Andsvar hv. þm. Drífu Hjartardóttur, formanns landbúnaðarnefndar Alþingis, gefur kannski svolítið í skyn þetta sem ég var að tala um, að hver og einn ræðir skógrækt út frá sínum eigin tilfinningum. Hv. þingmaður hefur ákveðnar skoðanir í þessum efnum, t.d. þá að það verði aldrei nytjaskógrækt á litlum svæðum í landinu. Ég spyr. Er hæstv. ráðherra sammála því? Erum við sem sagt að tala um að aðeins verði á fáeinum svæðum á landinu einhvers konar nytjaskógrækt? Og á hvern hátt erum við að tala um bindingu koltvísýrings í skógrækt?

Við vitum það öll sem hér erum inni að skógur bindur ekki kolefni nema í takmarkaðan tíma. Kolefnið bindur hann fyrst og fremst meðan hann er í vexti, síðan verður ákveðin stöðnun og svo fer hann að fölna og þá losar hann aftur kolefnin. Þetta er ákveðið hringrásarferli og ef við ætlum að gera áætlun um að binda verulegt magn kolefnis í skógi þurfum við að láta þær áætlanir liggja á borðinu þannig að við getum rætt um þær af einhverju viti en ekki út frá tilfinningum okkar eða hugmyndum hvers og eins. Þess vegna segi ég að mér finnst vanta stefnumörkun þar sem tekið er verulega vel á öllum þáttum þessa máls.

Varðandi sjálfbærni birkiskóganna okkar þá eru þeir auðvitað skógar sem bjarga sér sjálfir ef ekki er sótt að þeim varðandi landnytjar, uppblástur og annað slíkt. Þeir þurfa því ákveðinnar verndar við. Það er alveg ljóst. En ég er fyrst og fremst að tala um sjálfbæra nýtingu skógarins sem er til staðar. Við erum ekki með náttúrulegan skóg sem við getum sagt að við getum farið að stunda skógarhögg í og verulega umfangsmikla timburframleiðslu. Það er allt í ræktuðum skógi. Ég held að við þurfum að ræða um sjálfbæra nýtingu þeirra skóga sem eru til staðar á Íslandi sem plantað er sérstaklega með nýtingu og skógarhögg í huga.