132. löggjafarþing — 74. fundur,  23. feb. 2006.

Landshlutaverkefni í skógrækt.

555. mál
[14:25]
Hlusta

Drífa Hjartardóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Að sjálfsögðu erum við að rækta skóg m.a. með það að markmiði að framleiða viðarafurðir en það verður ekki hægt alls staðar á landinu. Það var það sem ég var að segja. Til þess eru ýmsar ástæður og ég sé að það getur ekki verið alls staðar en það getur verið víða.

Að mínu mati hefur verið gríðarlega mikil umræða í þjóðfélaginu um skógrækt, gríðarlega mikil. Það sem hefur verið gert varðandi aðgengi fólks í þessa fáu skóga okkar hefur verið til fyrirmyndar. Unnið hefur verið í að búa til stíga, bæta aðgengið, ekki bara í þjóðgörðunum heldur líka á þeim skógræktarsvæðum sem eru almenningseign, þ.e. í þjóðskógunum og skógum sem skógræktarfélögin hafa verið að koma upp á undanförnum árum. En svo getur verið að einhverjir einkaaðilar loki sínu svæði. En reyndar eru til önnur lög um aðgengi allra að landinu og ekki má hefta aðgengi fólks um landið og það á alveg jafnt við um skóga og önnur svæði.

Ég tel að frumvarpið sé afskaplega gott. Ég held að það skipti miklu máli einmitt að sameina lögin um þessa skóga í einn lagabálk. Þessi verkefni hafa sýnt að þau hafa verið geysilega öflug, mikið byggðamál að mínu mati og hefur verið afskaplega skemmtilegt að fylgjast með þessu. Auðvitað verður að fara að öllu með gát og hafa umhverfið, stofninn með í því hvað verið er að gera. Það skiptir líka heilmiklu máli að vinna saman.