132. löggjafarþing — 74. fundur,  23. feb. 2006.

Landshlutaverkefni í skógrækt.

555. mál
[14:29]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Til að það verði ekki misskilið sem á eftir kemur vil ég taka svolítið ofan fyrir hæstv. ráðherra. Mér finnst hann hafa staðið sig nokkuð vel í að slást fyrir því að fjármunir komi til þeirra verkefna sem hér er verið að fást við. Vonandi hefur honum tekist að tryggja framtíð þeirra verkefna hvað fjármunina varðar því að auðvitað eru menn að tala um langtímaverkefni og vonandi að á því sé fullkominn skilningur að ekki er hægt að fara í skógræktarátak af þessu tagi öðruvísi en skilningur sé á því átaki sem nær yfir mörg kjörtímabil. Menn þurfa að hugsa í áratugum og mannsöldrum en ekki kjörtímabilum þegar verið er að tala um slíkt sem þetta.

Ég ætla að byrja á að tala aðeins um það sem hv. þm. Einar Már Sigurðarson nefndi varðandi nafngiftir á þessum skógum, en ég ætla að koma að því svolítið frá annarri hlið. Ég er ekki að leggja til að menn noti sömu nöfn á skógana austur á fjörðum og vestur á fjörðum eða að menn breyti þeim nöfnum. Hins vegar finnst mér þetta lagaheiti óþjált og tel að það væri kannski ástæða til að finna eitthvert annað nafn á verkefnið sem slíkt, þ.e. aðkomu ríkisins að því. Við tölum annars vegar um þjóðskóga og við gætum t.d. talað um landsskóga hvað þetta varðar. Ég minni á að einu sinni voru landshafnir í landinu. Þær hétu ekki sömu nöfnunum allar en þær voru allar landshafnir. Það væri því hægt að líta svo á að um landsskóga væri að ræða eða nota eitthvert annað nafn, ég geri ekki mikið með það í sjálfu sér en nota það hér til að koma því á framfæri sem ég er að tala um að menn hafi eitthvert slíkt nafn. Það er annað sem mér finnst líka skipta máli og það er að þjóðin viti hvar peningar hennar liggja. Ég spyr: Er gert ráð fyrir að þessi svæði séu merkt einhvers staðar, þessir skógar, svo fólk viti hvaða skógar þetta eru, hvað séu þá landsskógar í þessu tilfelli og hvað ekki?

Varðandi skipulagið og undirbúninginn við þetta þá geri ég ráð fyrir að verið sé að tala um að einhvers konar landnýtingaráætlun þurfi að liggja fyrir. Sú áætlun verður á ábyrgð sveitarfélaganna á viðkomandi svæði sem bera ábyrgð á skipulagsmálum en grunnrannsóknir í á þessum landsvæðum auðvitað þurfa að vera til í sveitarfélögunum til þess að ekki verði einhver vandamál eða slys vegna ákvarðana um skógrækt af þessu tagi. Ég efast ekki um að menn hafi þetta allt í huga en ég sé það ekki alveg í textanum. Mér finnst nefndin þurfa að skoða það vel hvort líklegt sé að upp komi einhver vandamál vegna umferðar vegna þess að ekki sé gert ráð fyrir að hægt sé að njóta þess umhverfis sem skógarnir skapa, að sveitarfélögin hafi staðið sig í því að gera göngustíga og aðkomuleiðir sem gefi kost á þessu, að þeir sem fá þessa fjármuni geri líka ráð fyrir að það sé gott og gaman að fara um þessi svæði og njóta umhverfisins.

Ég tel reyndar að 3. tölul. 2. gr. frumvarpsins þar sem talað er um „ræktun skógar með það að meginmarkmiði að fegra land“ geti kannski í mörgum tilfellum verið veigamesti liðurinn. Ég ætla ekki að gera lítið úr möguleikum skógræktar sem atvinnugreinar á Íslandi, ég verð að játa það á mig að ég hef ekki vit á því að meta þá möguleika en mér finnst ég alveg hafa vit á því að meta það að skógrækt og landsfegrun sem fylgir því, vel skipulögð vinna hvað varðar aðkomumöguleika fólks, framtíðarsýn sem viðkomandi sveitarfélag hefur fyrir svæðið, landnýtingarskipulag og annað slíkt sem þarf að liggja fyrir, geti gefið þessum verkefnum gríðarlega mikið vægi í framtíðinni.

Ég vildi koma þessu á framfæri og af því að mér finnst ég ekki sjá það í sjálfum frumvarpstextanum að þar sé neins konar hald til að setja reglugerðir sem gera ráð fyrir að hægt sé að nýta þetta land með tilteknum hætti. Það verður auðvitað að horfast í augu við það að land sem menn taka undir skógrækt getur verið mjög viðkvæmt, það getur þurft að koma í veg fyrir umferð um það á meðan plönturnar eru að ná sér á strik o.s.frv. Það er ekkert athugavert við það, bara sjálfsagt mál, en það á ekki að verða þannig að slíkt svæði verði heilagur reitur sem einungis bóndinn getur farið um og skoðað. Þetta eiga að vera verðmæti sem þjóðin getur notið.

Það er framlag mitt til þessarar umræðu að nefndin fari yfir það hvort hún telji að vandamál af þessu tagi geti komið upp. Ég legg mikla áherslu á að menn skoði hvernig rannsóknir á möguleikum til landnýtingar í sveitarfélögunum og skipulag sveitarfélaganna gangi fyrir sig, að vel sé fyrir því samstarfi séð, sem verður að vera í upphafi, að vel sé staðið að því skipulagi sem menn koma sér upp í einstökum sveitarfélögum hvað varðar slíka skógrækt í framtíðinni og að það sé hugsað út frá öllum hliðum, ekki aðeins út frá hugsanlegum nýtingarmöguleikum til að hafa tekjur af heldur út frá náttúrunni, umhverfinu og möguleikum fólks til að njóta þess umhverfis.