132. löggjafarþing — 74. fundur,  23. feb. 2006.

Landshlutaverkefni í skógrækt.

555. mál
[14:37]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Þetta hafa verið fróðlegar umræður um skógrækt sem hér hafa farið fram. Fyrst þegar menn hófu að leggja fram frumvörp, sem síðar urðu að lögum, um landshlutaskóga sem við erum að ræða í dag, verð ég að viðurkenna að ég hafði ekki mikla trú á því sem möguleika til að efla atvinnulíf í byggðum landsins, nema þá bara um stund meðan á gróðursetningu stæði. En ég hef komist á aðra skoðun eftir að hafa farið um landið og skoðað þá flesta. Ég held að þarna séu meiri möguleikar en menn töldu áður.

Það er líka ýmislegt í umhverfinu sem vinnur með þessum skógum. Eitt af því sem við eigum við að glíma, mannkynið sem heild, er hlýnun lofthjúpsins og það er líklegt að hér hlýni á þessari öld, illu heilli. En ein af hinum jákvæðu afleiðingum þess er að öllum líkindum sú að skógar munu eiga miklu auðveldara uppdráttar en menn töldu og af þeim sökum er líklegt að hér verði meiri möguleikar til að efla nytjaskóga og raunverulega atvinnu sem stendur undir sjálfri sér, með kannski einhverjum tilstyrk í upphafi af hálfu ríkisins, en menn töldu áður.

Ég er þeirrar skoðunar, í framhaldi af máli hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur, að því miður skipti skógarnir og landgræðslan ekki mjög miklu máli, raunar töluvert litlu, varðandi bindingu koltvíoxíðs. Þær tölur sem ég hef séð um það sýna, því miður, að þó að auðvitað sé það jákvætt er það ekkert sem skiptir verulega miklum sköpum fyrir losun okkar Íslendinga. En það er jákvætt og taka ber tillit til þess líka.

Margvíslegar umræður hafa verið um skógrækt á síðustu árum. Ég hef t.d. verið í þessum ræðustól áður og hvatt hæstv. ráðherra til að beita sér fyrir meiri rannsóknum á sviði skógræktar. Ég held að engin atvinnugrein geti orðið öflug nema á bak við hana standi öflug rannsóknarvinna. Við eigum merka skógfræðinga sem hafa mikla reynslu af þeim séríslensku aðstæðum sem hér eru. Slíka vinnu þarf að efla.

Mig langar í framhaldi af þessari umræðu að varpa því til hæstv. ráðherra hvort ekki séu í gangi tilraunir sem tengjast hugsanlega landshlutabundnum skógarverkefnum sem varða ekki beinlínis nytjaskóga en varða ásýnd landsins og upprunalegt gróðurfar landsins. Ég á við hina íslensku birkiskóga. Hér eru enn þá til leifar fornra skóga, eins og Bæjarstaðaskógur í Skaftafelli, sem eru algerlega einstakir. Hvert sem maður fer um norðurslóðir sér maður aldrei annan eins birkiskóg og þar. Þetta er alveg sérstakur skógur þó að lúpínan sé illu heilli nánast að kæfa þann góða skóg og ungviðið eigi erfitt að spretta þar. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Eru ekki, í tengslum við slík verkefni, rannsóknir í gangi sem miða að því að notfæra sér það erfðaefni sem þarna er að finna til að koma upp birkiskógum af þessu tagi víðar þar sem við vitum úr Íslendingasögum, sem ég eins og hæstv. landbúnaðarráðherra trúum nánast hverju orði í, að stóðu til forna nægilega miklir til að heilir herir gátu í þeim fólgist?

Í framhaldi af þessu, frú forseti, langar mig líka til að spyrja hæstv. ráðherra hvað líður störfum nefndar sem hefur verið að vinna að sameiningu landgræðslu og skógræktar. Ekki að ég sé að leggjast gegn slíku en ég hef farið um Austurland og hef hrifist af því hversu vel hefur tekist þar til um skógræktina og ég hygg að það sé ekki síst vegna návistar við þá miðstöð sem höfuðskrifstofa Skógræktarinnar á Egilsstöðum er. Mig langar því til að spyrja hinn velheyrandi hæstv. landbúnaðarráðherra hvort einhver áform séu uppi um það að flytja Skógrækt ríkisins frá Egilsstöðum eitthvert annað. Reynsla mín af hæstv. ráðherra er auðvitað sú að hann er umfram allt allt annað en kjördæmapotari og ef slíkar áætlanir eru uppi þá er ég alveg viss um að þær miða ekki að því að flytja höfuðstöðvar skógræktarinnar í hans eigið kjördæmi. Samt vildi ég gjarnan fá upplýsingar um það frá hæstv. ráðherra, fyrst við erum að tala um skógrækt, hver er staða þessa máls núna?