132. löggjafarþing — 74. fundur,  23. feb. 2006.

Landshlutaverkefni í skógrækt.

555. mál
[14:42]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka þá gagnlegu og góðu umræðu sem fram hefur farið um málið, þær mörgu athugasemdir og mörg þau góðu sjónarmið sem hafa komið fram í umræðunni. En það má segja um síðustu ræðu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar að slík ræða komi úr sólarátt. Hann minntist á ýmis atriði sem vert er að ræða. Hann spurði um sameiningu Skógræktarinnar og Landgræðslunnar, hvað því liði eða hvort það væri á dagskrá. Ég hef boðað að það sé á dagskrá að því leyti að verið er að fara yfir þetta með þessum fyrirtækjum. Liggur það fyrir á næstunni hvaða atriði það eru sem gera það að verkum að menn vilja sameina, hvort það sé brýn þörf og hvort það sé skynsamlegt. Þetta mun liggja fyrir á næstu dögum, vona ég, og þá förum við yfir það mál. Ég hef talið að sá tími væri kominn vegna þeirrar breyttu stöðu að bændurnir rækta skóginn. Þeir eru líka landgræðslubændur. Þetta eru stjórnsýslustofnanir og vísindastofnanir sem hafa á hendi rannsóknir og fagleg störf og geta þess vegna verið ein stofnun.

Ég hef jafnframt alltaf fullvissað menn um það í þessari umræðu að bæði fyrirtækin, Skógrækt ríkisins og Landgræðslan, starfa um allt land. Það væri fáheyrt ef menn staðsettu ekki, þótt sameinað væri, fyrirtækið þannig að ákveðnar höfuðstöðvar skógræktarinnar yrðu áfram fyrir austan þar sem hjarta þeirra verkefna hefur þróast. Ég hef það hugarfar sjálfur að ef til þessa kæmi yrði þetta miklu frekar til þess að styrkja Austurland, Hallormsstað og Egilsstaði, með auknum verkefnum en að taka frá þeim verkefni. Síðan er hinn stóri staðurinn í málinu, þetta eru tveir hjartastaðir, og það er auðvitað Gunnarsholt þar sem saga Landgræðslunnar liggur. Ég sé mjög stór hlutverk fyrir báða þessa staði þótt sameinaðir yrðu og tel reyndar að ekki verði sameinað nema þetta liggi alveg skýrt fyrir.

Hv. þingmaður og reyndar fleiri hafa sagt í þessari umræðu um rannsóknir að það þurfi meiri rannsóknir og ég get tekið undir það. Skógræktin stundar auðvitað miklar rannsóknir eins og þekkt er hér uppi á Mógilsá og víðar og hefur unnið að skógræktarverkefnunum og þjóðskógunum og þar liggja mörg vísindaleg afrek fyrir, bæði í að finna upp kvæni og afbrigði og finna út hvaða tegundir passa í landið okkar og veðráttuna og jafnframt að rannsaka þjóðskógana, þannig að það eru mörg verkefni sem liggja fyrir hvað það varðar. Ég vil taka undir með hv. þingmönnum sem margir hverjir hafa ítrekað mikilvægi þess í ræðum sínum að leggja mikla áherslu á rannsóknir.

Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir kom einnig mjög sterkt inn á þetta í ræðu sinni og ræddi t.d. um rannsóknir út frá hinni væntanlegu og nýju búgrein sem skógurinn væri og síðan ýmsar náttúrufarslegar rannsóknir sem mikilvægt væri að hafa, eins og hér kom fram í máli hv. síðasta ræðumanns. Þetta eru stór verkefni sem ég tel mikilvæg, að styrkja rannsóknir og vísindastörf inni í Skógrækt ríkisins enn frekar í sessi og síðan er hitt sem hefur komið skýrt fram í þessari umræðu hvað skipulagsmál varðar, hvar skóginum er plantað. Það er ekkert sama. Þar hafa menn sett sér vandaðar reglur og það er t.d. eitt sem er bara mjög mikilvægt að við eigum landið stórt, við höfum ákveðið jú að einhver 5% af láglendi verði með skógi, það er ekki stórt svæði. En þar er líka mikilvægt að velja land sem hentar vel undir skóg, taka ekki akra eða engi, taka ekki ræktunarland. Við þurfum í framtíðinni kannski á öllu okkar landi að halda til landbúnaðar og eigum ekki að leggja það undir skógrækt heldur nota mela og hlíðar og staði sem eru vel fallnir til að rækta skóg. Þetta er eitt stórt verkefni, skógræktarverkefni, sem er mjög vel hugsað af landbúnaðarráðuneytinu og jafnframt Skógrækt ríkisins, þannig að ég tek undir þetta.

Hér hafa hv. þingmenn hafa líka rætt um, eins og kom fram í máli hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur, að þingið þyrfti í rauninni að fá skýrslu frá landbúnaðarráðuneytinu um þessi verkefni og hvernig þeim mundi vinda fram. Ég get alveg tekið undir að það væri þess virði til þess að skapa samstöðu hér í þinginu, að með reglulegu millibili kæmi út skýrsla með upplýsingum um hvernig þessi verkefni stæðu, hver þróun þeirra væri og árangur af þeim o.s.frv. Þannig að þingið sem er samstiga um fjármögnun þessara verkefna og að skapa þessa auðlind geti sem allra best fylgst með málinu.

Hv. þingmaður ræddi enn fremur um að það væri eðlilegt að halda málþing um þróun skógarins og skógræktarverkefnanna. Málþing eru oft á dagskrá hjá stofnunum Bændasamtakanna og landbúnaðarráðuneytisins, þar eru haldin myndarleg málþing þar sem þessi mál eru auðvitað oft á dagskrá. Ég tel líka alveg eðlilega hugsun og kannski mikilvægt að við höldum svona málþing með þjóðinni um þá þróun sem er að verða því það þarf að ríkja sátt um þessi mál. Ég sé ekki fyrir mér að við plöntum skóginum þannig að við hættum að sjá fjöllin. Ég vil hefja augu mín til fjallanna þegar ég fer um landið og sjá þau í fjarlægð fögur og blá. Það er mikilvægt að um þetta ríki sátt og skipulagið sé klárt, hvar eigi að rækta skóg.

Ég hygg að við styðjumst mjög við hina norrænu stefnu og hið norræna samstarf. Skógrækt ríkisins, landshlutabundnu verkefnin og landbúnaðarráðuneytið hér eru í miklu samstarfi við frændþjóðir okkar á Norðurlöndunum. Þangað sækjum við mikla þekkingu og eigum gott samstarf og njótum ráða þeirra á mörgum sviðum, þannig að auðvitað styðjumst við við hina norrænu stefnu og hugsum um hina alþjóðlegu samninga, líffræðilegan fjölbreytileika og allt sem snýr að þessu máli.

Hv. þm. Jóhann Ársælsson kom hér inn á það að merkja þá bæi sem væru í þessum verkefnum. Við höfum ekki lagt þær kvaðir á skógarbændurna sem gera þessa samninga að þeir væru með skóga sína opna, miklu frekar hefur verið horft á að þjóðskógarnir, skógarnir sem eru í eigu ríkisins, sem voru lokaðir fyrir örfáum árum síðan, væru opnaðir og þar gerðar gönguleiðir og skapað næði.

Í merkilegri könnun sem gerð var fyrir stuttu kom í ljós að hlutfallslega fleiri Íslendingar fara nú orðið út í skóg en Danir, sem er dæmi um þann gríðarlega mikla áhuga sem Íslendingar hafa á skógum sínum. Þetta verkefni Skógræktar ríkisins, sem er glæsilegt, að opna skógana smám saman til þess að gefa almenningi hlutdeild og aðgang að náttúrunni er alveg sérstaklega þakkarvert. Því þarf auðvitað að fylgja enn betur eftir til þess að fólk njóti skógarins í ríkari mæli.

Hv. þm. Jóhann Ársælsson ræddi um að merkingar á lögbýlum væru í skógaræktarverkefnum. Ég sagði að við hefðum ekki lagt þá kröfu á skógræktarbændur, því þeir leggja auðvitað fram vinnuframlag sitt en það má auðvitað hugsa sér það. Það kann vel að vera, af því að skógræktarbændur eru mjög stoltir af sínum verkum, að þeir vilji sjálfir merkja við býli sín að hér búi skógarbóndi og menn séu velkomnir í skógarkaffi eða að skapa afþreyingu, þess vegna leyft fólki að ganga í gegnum skóginn. Mér finnst þetta ágætis hugmynd og þess virði að ræða hana við skógarbændur og velta henni fyrir sér því að það er auðvitað mikið framlag sem fer til þessara verkefna til að búa til auðlindina og verður vonandi að tekjum fyrir fólkið sem á jörðunum býr. Þetta má því vel hugsa sér að mínu mati og væri í rauninni glæsilegt að merkja skógarjarðirnar með þessum hætti.

Hitt er svo ljóst að þessi verkefni, skógræktarverkefnin, hafa eflt byggðina mikið, hækkað verð á landi, vakið áhuga á landinu og eru hluti af þeirri miklu nýsköpun sem á sér stað í íslenskum sveitum í dag. Þar á sér stað mikil nýsköpun sem snýst um skóginn, um íslenska hestinn, um ferðaþjónustuna og um svo margt sem býr í náttúrunni og fólkið er að gera að tekjulind hjá sér og dregur fólk að. Landverð hefur hækkað, landið er dýrmætara, fleiri og fleiri vilja búa í sveitum þessa lands og ég hef stundum sagt að það er nánast að komast í tísku að búa í sveitinni og bera hið fallega gamla, íslenska nafn bóndi. Það hefur orðið mikil viðhorfsbreyting á stuttum tíma hvað þetta varðar.

Ég vil þá í lokin, hæstv. forseti, þakka þá góðu umræðu sem hefur farið fram um málið og veit að landbúnaðarnefnd mun nú með þeim fulltrúum sem þar sitja taka til hendinni og fara yfir þetta mál og styrkja það kannski enn frekar.