132. löggjafarþing — 74. fundur,  23. feb. 2006.

Fjármálaeftirlit.

556. mál
[15:16]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er alveg sammála hæstv. ráðherra um að það er ákaflega óæskilegt að stjórnmálaviðhorf einstaks ráðherra hafi áhrif á hvaða boð hún kann að flytja einstökum stofnunum um aðgerðir. Ég held að allir séu sammála um það. Eftir stendur hins vegar sú staðreynd að í dag eru lög og 2. mgr. 12. gr. laganna um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi segir einfaldlega að Fjármálaeftirlitið eigi að skýra ráðherra tafarlaust frá fyrirhuguðum aðgerðum. Það er væntanlega til þess að ráðherra geti haft skoðun á því, ekki veto eða bannrétt en að hann geti haft skoðun á því. Ef ráðherra á lögum samkvæmt að geta haft skoðun á aðgerðum Fjármálaeftirlitsins þá hefur hún líka lögum samkvæmt rétt til að hafa skoðun á aðgerðaleysi. Svipað ákvæði hefur verið í lögum um aðrar eftirlitsstofnanir og hæstv. ráðherra hefur notfært sér það. Við vitum öll að hæstv. ráðherra hefur, hvað sem hún segir um hvað sé æskilegt eða ekki, skrifað bréf til eftirlitsstofnana til að finna að því að þær fari ekki í ákveðnar aðgerðir eða að ákveðnum aðgerðum sé ekki sinnt af nægilegum hraða. Þetta liggur alveg fyrir.

Burt séð frá því hvað mér og hæstv. ráðherra kann að þykja æskilegt, og ég held við séum sammála um hvað er æskilegt í þessu máli, þá liggur fyrir að það eru í gildi lög. Þeim verður ekki breytt fyrr en búið er að samþykkja þetta frumvarp og þess vegna spyr ég: Hvers vegna nýtti hæstv. ráðherra sér ekki þennan rétt til að láta í ljósi skoðun sína á því að að hennar mati ætti, án þess hún fyrirskipaði það, að skoða hvort einkavæðingarnefnd forsætisráðherra hefði hugsanlega verið gefnar rangar upplýsingar varðandi einkavæðingu Búnaðarbankans? Mér finnst þetta vera mikilvægt og það er fordæmi fyrir því að hæstv. ráðherra hafi gert slíkt.