132. löggjafarþing — 74. fundur,  23. feb. 2006.

Fjármálaeftirlit.

556. mál
[15:18]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ef ég hefði skrifað slíkt bréf væri ég farin að skipta mér af Fjármálaeftirlitinu. Það vil ég ekki gera og það er ég margbúin að taka fram á hv. Alþingi. Þegar hv. þingmaður segir að ég hafi skrifað eftirlitsstofnunum bréf þá er það ekki rétt, það er hins vegar rétt að ég hef skrifað eftirlitsstofnun bréf. Það hefur einu sinni komið fyrir á mínum sex eða sjö ára ferli að ég hafi skrifað bréf til Samkeppnisstofnunar og hv. þingmenn vita örugglega hvaða bréf það var og hvert erindið var.

Þannig er með reglur að þar er oft til undantekning og þetta er undantekningin sem ég viðurkenni fúslega að á við í þessu sambandi hvað mig varðar og eftirlitsstofnanir sem undir ráðuneytið heyra. Hins vegar vil ég ítreka það að allir geta leitað til eftirlitsins og sent þangað erindi. Engu að síður er Fjármálaeftirlitið sjálfstætt og það ákveður sjálft hvort það gerir eitthvað með þau erindi, hvort því finnst ástæða til að taka tillit til þeirra. Þegar ég segi allir undanskil ég kannski ráðherrann í þessu tilfelli, því að annars erum við komin út á mjög hættulega braut. Ég held að hv. þingmenn séu mér algjörlega sammála um það, af því að við viljum ekki pólitísk afskipti af þessu máli. (Gripið fram í.) Þetta er alveg nákvæmlega eins og ef hv. þingmenn segðu í þessum ræðustóli að dómsmálaráðherra ætti að skrifa lögreglunni bréf og biðja hana um að rannsaka eitthvert fyrirtæki úti í bæ, t.d. efnahagsbrotalögregluna. Hverjum dytti það í hug? Hv. þingmenn ættu að taka það gott og gilt að eftirlitið er sjálfstætt og vinnur sjálfstætt. Með því að taka það ákvæði út úr lögunum sem við leggjum til hnykkjum við á því að það er sjálfstætt.