132. löggjafarþing — 74. fundur,  23. feb. 2006.

Fjármálaeftirlit.

556. mál
[15:27]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Það komu mikilvæg atriði fram í andsvörum við hæstv. ráðherra áðan. Ég vil nú segja það að ég hef fyllstu samúð og skilning á því viðhorfi sem hæstv. ráðherra hefur gagnvart tengslum ráðherra og eftirlitsstofnana af þessu tagi, það skiptir mjög miklu máli að eftirlitsstofnanir séu sjálfstæðar. Það skiptir líka máli að menn fari að lögum. Þó að nú sé verið að fella brott 2. mgr. 12. gr. sem kveður á um að kröfur, athugasemdir og fyrirhugaðar aðgerðir Fjármálaeftirlitsins séu þegar í stað tilkynntar viðskiptaráðherra, breytir það ekki því að það ákvæði er enn þá í gildi. Menn eiga að fara eftir því og ég held að hæstv. viðskiptaráðherra hafi notfært sér svipuð ákvæði einu sinni.

Það er alveg ljóst að hér hafa staðið töluverðar deilur um einkavæðingu Búnaðarbankans. Komið hafa fram, að mínu mati, rökstuddar fullyrðingar um að þar hafi hugsanlega ekki allt verið með felldu að því leyti að einkavæðingarnefnd forsætisráðherra hafi ekki verið gefnar réttar upplýsingar. Við þær aðstæður að Fjármálaeftirlitið grípur ekki til neinna aðgerða til að hrinda þeim grun eða ýta honum út af borðinu með skoðun, þá finnst mér að í krafti þess ákvæðis sem enn er í gildi hefði hæstv. viðskiptaráðherra a.m.k. getað leyft sér að hafa skoðun á því. Það er nefnilega ekki nógu gott þegar hæstv. ráðherra kemur og segir að hún telji að það eigi að vera algild regla að það séu engin samskipti af þessu tagi á milli Fjármálaeftirlitsins og hins faglega ráðherra en segir síðan jafnframt að það séu alltaf undantekningar á reglunum. Annaðhvort eru svona reglur í gildi eða ekki.

Hæstv. ráðherra hefur sjálf skrifað bréf til Samkeppnisstofnunar þar sem hún fór með formlegum hætti fram á að stofnunin setti ákveðið mál í rannsóknarforgang. Ég var sammála því þegar hæstv. ráðherra gerði það. Ég tel að ekkert sé athugavert við það og það er alveg klárlega löglegt af hennar hálfu eins og um hnúta laganna er búið í dag. Hugsanlegt er að túlka megi það öðruvísi þegar búið er að samþykkja þetta frumvarp, ef óbreytt verður. Hins vegar hafa stjórnvöld oft og tíðum, núverandi hæstv. ríkisstjórn með öðrum hætti, líka haft afskipti í reynd, og ég er ekki að lasta það, af t.d. störfum eftirlitsstofnana eins og Samkeppnisstofnunar. Hæstv. ríkisstjórn lagði t.d. fram á hinu háa Alþingi sérstaka tillögu, sem var samþykkt, um aukafjárveitingu til Samkeppnisstofnunar beinlínis til að auðvelda rannsókn á tilteknu máli. Í þessu máli finnst mér því vera áhöld um hver sé hin raunverulega stefna ríkisstjórnarinnar.

Frú forseti. Ég sagði í upphafi míns máls að ég hefði skilning á þessu viðhorfi hæstv. ráðherra. Spurning er hversu langt á að ganga í þessum efnum. Ég er þeirrar skoðunar að hæstv. ráðherra, hver sem hann er, geti haft viss fagleg afskipti af eftirlitsstofnunum. Ég velti því fyrir mér hvort ekki sé verjanlegt, jafnvel að samþykktu þessu frumvarpi, það sem hæstv. viðskiptaráðherra gerði árið 2000 með bréfi sínu til Samkeppnisstofnunar. Þar er ekki verið að segja að taka eigi ákveðið mál til rannsóknar heldur einungis verið að segja — sem eru hagsmunir allra, bæði þeirra sem voru undir rannsókn og líka okkar neytenda og borgara sem fylgjumst með málinu — að hraða rannsókn máls sem hefur dregist úr hömlu.

Mér finnst það ekki óeðlilegt og mér finnst að hæstv. ráðherra eigi ekki að vera svo mikil ofsatrúarmanneskja á þessu sviði að jafnvel að þessari lagabreytingu samþykktri mundi hún skirrast við að gera slíkt. Ég hef a.m.k. skilið það svo að á meðan ekki er um beina íhlutun að ræða í ákvarðanir um hvað viðkomandi eftirlitsstofnun eigi að taka til rannsóknar sé í lagi að t.d. ráðherra hafi skoðanir á þessu. Ég held að það sé þarft fyrir samfélagið líka.

Því tek ég þetta mál sérstaklega hér upp nú til að benda á það að hæstv. ráðherra notaði tækifærið í óundirbúinni fyrirspurn frá hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni á mánudaginn til að rífa sig a.m.k. niður í maga gegn Samfylkingunni sérstaklega fyrir að hún skyldi hugsa sér þá ósvinnu að hæstv. ráðherra léti í ljós skoðun sína á því hvort Fjármálaeftirlitinu bæri að rannsaka það sem hermt var í fjölmiðlum að væru blekkingar gagnvart einkavæðingarnefnd forsætisráðherra. Það gengur ekki að hæstv. ráðherra ráðist með þeim hætti á einstakan þingmann og einstakan stjórnmálaflokk þegar það liggur alveg ljóst fyrir að sú regla sem hún var að skamma hv. þm. Lúðvík Bergvinsson fyrir að brjóta var brotin af henni sjálfri árið 2000 þegar hæstv. ráðherra sendi bréf til Samkeppnisstofnunar.

Ég tel að hv. þm. Lúðvík Bergvinsson hafi staðið á traustri bjarghellu laganna þegar hann kom með þá fyrirspurn sína á mánudaginn vegna þess að lögin eins og þau eru í dag kveða fortakslaust á um slíka heimild, hvort sem það er æskilegt lagaákvæði eða ekki. En það var sett af núverandi ríkisstjórn með þeirri röksemd að bersýnilega bæri Fjármálaeftirlitinu tilkynningarskylda gagnvart viðskiptaráðherra. Ef það er þannig, hæstv. forseti, að eftirlitinu beri skylda til að tjá ráðherra frá aðgerðum sínum þá liggur það alveg ljóst fyrir að það er beinlínis til þess að ráðherra geti, án þess að banna slíka aðgerð, haft á henni skoðun. Þá er ekki hægt annað en að gagnálykta að ef ráðherrann má lögum samkvæmt hafa skoðun á aðgerðum Fjármálaeftirlitsins hefur hún líka lagalegan rétt til þess að hafa skoðun á aðgerðaleysi Fjármálaeftirlitsins samkvæmt þessu ákvæði eins og það er núna.

Svo ég ljúki nú þessum parti ræðu minnar þá dreg ég þetta einfaldlega fram hér. Þetta skiptir ekki neinu meginatriði varðandi efni þess máls sem við erum að fjalla um, en mér fannst hæstv. ráðherra fara fram eins og fíll í glervörubúð þegar hún ásakaði stjórnmálaflokk minn og talsmann hans í málinu, hv. þm. Lúðvík Bergvinsson, um fjarstæðu þegar það liggur alveg ljóst fyrir að hann var einungis að óska eftir því sama og hæstv. ráðherra hefur sjálf veitt fordæmi fyrir og gerði það á grundvelli lagaákvæðis. Það þýðir ekki fyrir þennan ágæta hæstv. ráðherra að koma hingað og svara — ég vil ekki grípa til neinna lýsingarorða — með þeim hætti, jú, að þetta sé reglan en undantekningar séu á öllum reglum. Þá fyrst erum við farin að taka pólitískar ákvarðanir ef það er þannig að við höfum reglur í gildi en einhver tiltekinn ráðherra geti hugsanlega gert undantekningu á reglunni, ef það t.d. hentar Framsóknarflokknum. Það er ekki reglan sem við erum að tala um.

Frú forseti. Að lokum þessum neikvæðari kafla minnar ræðu vil ég segja að ég er býsna ánægður með frumvarpið að öðru leyti. Ég tel að í frumvarpinu sé hæstv. ráðherra að gefa eftirlitsstofnunum margvíslegar heimildir til að beita úrræðum sem eru algjörlega nauðsynlegar. Ég og stjórnmálaflokkur minn erum þeirrar skoðunar að það sé best fyrir viðskiptalífið, best fyrir arðsemi þess og best fyrir velsæld samfélagsins að sem fæst lög skerði athafnafrelsi fyrirtækja og einstaklinga. Við höfum hins vegar talað fyrir því að það séu sterkar eftirlitsstofnanir og þeim séu tryggðar nægilegar fjárveitingar til að standa undir nafni. Á því hafa nú verið skafankar af hálfu núverandi hæstv. ríkisstjórnar. Sömuleiðis séu þeim eftirlitsstofnunum gefin mjög sterk úrræði til að leita allra gagna sem þarf til að grafast fyrir um hugsanlega misnotkun, markaðsmisneytingu og annað sem fer ekki nægilega vel. Eftir að hafa, eftir minni þekkingu, grandskoðað frumvarpið finnst mér það að mörgu og flestu leyti taka á þeim álitamálum sem við höfum séð uppi í íslensku fjármálalífi.

Íslenskur fjármálamarkaður er enn á bernskuskeiði en hann hefur orðið mjög þróttmikill og hann hefur skipt mjög miklu máli fyrir velsæld samfélagsins. Við höfum hins vegar orðið vitni að ýmsum átökum í fjármálaheiminum og stundum hefur manni sem almennum borgara þótt sem fyrirtæki og athafnamenn hafi teygt sig út á ystu nöf. Ég neita því ekki að umbrot hafa orðið í fjármálaheiminum sem hafa verið þannig að mér sem fulltrúa á löggjafarsamkundunni hefur þótt á stundum að einstakir athafnamenn hafi farið út á hið gráa svæði og jafnvel handan við það.

Þá hefur komið í ljós að þær eftirlitsstofnanir sem við höfum sett upp til að gæta að hagsmunum borgaranna gagnvart slíkri háttsemi hafa ekki haft nægileg úrræði til að afla þeirra upplýsinga sem þarf og þær hafa ekki heldur haft þvingunarúrræði til að knýja viðkomandi aðila til að láta í té þær upplýsingar. Ég ætla ekki einu sinni að áfellast hæstv. ríkisstjórn eða þennan ágæta hæstv. viðskiptaráðherra fyrir að þau lög sem hún og ríkisstjórnin hefur lagt hér fyrir og við samþykkt hafi ekki séð við þessu. Þetta er bara partur af fæðingarhríðum nýs umhverfis í atvinnulífinu og ekkert fyrir okkur að gera annað en að læra af reynslunni, læra af öðrum þjóðum og samþykkja lög sem gefa okkur þessi úrræði.

Ég held að hér hafi komið fyrir atvik, bæði fyrir árið 2000 en líka núna á þessum vetri sem gefa fullt og ærið tilefni til að ráðist sé í þessar breytingar, sem eru að mörgu leyti töluvert harðar. Þær ganga mjög nálægt frelsi manna til athafna og þær til að mynda ganga nálægt grundvallarreglum sem við höfum meira að segja lögsett fyrir ákveðnar atvinnugreinar, sem er þagnarskyldan. Ég velti þessu mikið fyrir mér þegar ég skoða frumvarpið.

Er það verjanlegt að ganga svo langt að segja að hægt sé að skerða þagnarskylduna gagnvart þriðja aðila, t.d. lögfræðistofu úti í bæ sem hugsanlega kann að búa yfir mikilvægum upplýsingum sem eftirlitsstofnanir okkar þurfa á að halda til að komast að raun um t.d. hvort virkur eignarhluti í krafti laganna hefur myndast eða hvort um einhvers konar misneytingu sé að ræða? Er það verjanlegt í því skyni ef við erum að skoða viðskipti eða eftirlitsstofnanir okkar á millum segjum tveggja stórra fyrirtækja, þá sé hægt af hálfu Fjármálaeftirlitsins að ráðast inn á lögfræðistofu, sem ekki hefur nein afskipti af málinu nema hugsanlega milligöngu og lögfræðilega ráðgjöf, til þess að afla þar upplýsinga? Svar mitt er já. Ég held að þó að þarna sé ansi harkalega gengið fram þá er ég þeirrar skoðunar að þetta sé óhjákvæmilegt úrræði. Það er harkalegt en í staðinn gefur það okkur færi á að setja mjög skýrar reglur og fylgja þeim vel eftir.

Ég velti því líka fyrir mér hvort verjanlegt væri að leggja fram frumvarp með þvingunarúrræðum eins og hér eru, þ.e. mjög hörðum dagsektum sem geta numið allt að 2 millj. kr. á dag, muni ég rétt, gagnvart þriðja aðila af þessu tagi. Ég komst líka að þeirri niðurstöðu að það væri verjanlegt. Hin mildandi ásýnd frumvarpsins er þó sú að gert er ráð fyrir að slík þvingunarúrræði, t.d. í formi sekta, ráðist af fjárhagslegu umfangi viðkomandi. Ég tel því að þetta sé gott sem kemur fram í frumvarpinu.

Ég er sammála ýmsum öðrum atriðum líka. Ég er þeirrar skoðunar að þvingunarúrræðin og eftirlitsskyldan með ýmsum aðilum og upplýsingaskylda aðila sem ekki eru eftirlitsskyldir samkvæmt skilgreiningum í þeim lögum sem nú þegar liggja fyrir, sé jákvæð og þetta sé gott fyrir markaðinn og fyrir íslenskt samfélag.

Ýmsir skafankar hafa komið fram á lögunum sem hér er líka verið að bæta. Til dæmis hafa menn ekki verið nægilega ánægðir með þá úrlausn sem fæst með því að hafa kærunefnd í gangi sem hefur að ýmsu leyti, taldi ég, fúnkerað vel. En það er niðurstaðan í frumvarpinu, eftir að hafa skoðað og væntanlega hlustað á markaðinn sjálfan og skoðað hvernig þetta gerist í öðrum löndum, að fella kærunefnd í burtu. Í staðinn er veitt heimild til að skjóta deilum af þessu tagi til dómstólanna. Hér er yfirleitt um stór og fordæmisgefandi mál að ræða. Hugsanlega er því rétt að gera þetta. Svona gera menn þetta í Svíþjóð og í Finnlandi. Ég veit ekki hvernig þeir gera þetta í Danmörku en ég held að umræður séu um það líka.

Til að hægt sé að ráðast í dómsmál þurfa menn að vera stórir og sterkir. Reynslan sýnir að þeir sem hafa lent í slíkum málum hafa verið fjárhagslega öflugir og hafa getað lokið þeim kostnaði sem af slíku hlýst. En ég spyr hæstv. ráðherra: Hvað ef sú staða kemur upp að það er einhver einstakur, einn lítill hluthafi, einn af þessum litlu köllum sem eru að slást á markaði sem þykir á sér brotið og vill með einhverjum hætti fyrir hönd fyrirtækis sem hann á hluta af skjóta máli sínu til úrskurðar æðra valds? Ef hann þarf í svona málum að leita til dómstólanna mundi ég ætla fyrir fram að honum væri það fjárhagslega ómögulegt. Ég spyr hæstv. ráðherra: Með hvaða hætti er bætt úr því? Er möguleiki slíkra manna tryggður?

Þetta eru þau meginatriði sem ég vildi sagt hafa um frumvarpið. Við í Samfylkingunni teljum að frumvarpið sé jákvætt og mér finnst það vera mjög jákvætt, harkalegt frumvarp, en það er mjög líklegt til þess að sýna að það getur enginn komist upp með í skjóli þagnarskyldu eða einhvers annars að leyna upplýsingum sem þessar sterku eftirlitsstofnanir, eins og þær vonandi verða, þurfa til að geta upplýst um málshætti sem varða hag okkar allra. Það er einfaldlega þannig á Íslandi að sparnaður okkar Íslendinga er í vaxandi mæli farinn að þróast inn í almenningshlutafélög, og það er jákvætt. Það eru þess vegna ábyggilega tugir þúsunda, ef ekki hundrað, á Íslandi sem hafa beina hagsmuni af því að skikkan sé á þessum markaði.

Ég byrjaði ræðu mína með því að vera nokkuð harður við hæstv. ráðherra út af tilteknum atriðum sem ég ætla ekki að fara í aftur. En mig langar aðeins í lokin til að stríða hæstv. ráðherra pínulítið, þó að það sé nú ekki mitt eðli. (Gripið fram í.) Ég sagði í ræðu minni að ég fellst á þá hörku sem mér finnst felast í ákvæðum frumvarpsins um takmarkaðri þagnarskyldu. Ég tek eftir því að alls staðar í frumvarpinu er lögð rík áhersla á og sett bein fyrirmæli um að þagnarskyldan verði að gilda og þeir sem af hálfu stofnananna koma að málum af þessu tagi og fá upplýsingar verða að halda þeim leyndum alla tíð út yfir gröf og dauða. En það vekur eftirtekt mína varðandi það mál sem ég nefndi í upphafi að þegar hæstv. ráðherra, sem mér fannst hálfvegis laumupokast með brottfall þess ákvæðis, 2. mgr. 12. gr. um tilkynningarskyldu Fjármálaeftirlitsins til hæstv. ráðherra, af því að hún gat þess ekki í ræðu sinni og það er heldur ekki að finna beina tilvitnun í brottfallið í frumvarpinu sjálfu, tillögugreinunum, það kemur einungis fram í athugasemdum. Maður þarf að lesa greinarnar saman til að skilja hvað þarna er á ferðinni. Fram kemur að önnur orsökin fyrir því að það er gert, þ.e. að numin er brott skylda Fjármálaeftirlitsins til að tilkynna hæstv. ráðherra um slíkar aðgerðir, er m.a. sú að óæskilegt sé að vitneskjan um þær aðgerðir berist of víða.

Þá spyr ég hæstv. ráðherra: Er það svo að hún treysti ekki starfsmönnum sínum til að þegja um mál, sem þeir hafa þó lagaskyldu til að þegja yfir en hún treysti hins vegar öllum öðrum stofnunum til að þegja yfir? Ég vil spyrja hæstv. ráðherra um þetta því að mín reynsla af starfsmönnum hennar í hinu háa iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti er sú að þeir vita að þögn er gulls ígildi og ég treysti þeim fullkomlega. Það er því ekki af þeirri ástæðu sem ég tel að fella eigi þetta brott.

Virðulegi forseti. Ég hef ekki meira um þetta mál að segja að sinni en vona að hæstv. ráðherra hugsi nú sinn gang um hina gullnu reglu sem hún sagði frá í upphafi, að ráðherra eigi ekki að hafa nein afskipti, pólitísk né önnur, af eftirlitsstofnunum. Hún hnýtti því svo við að á öllum reglum séu undantekningar. Það finnst mér ekki vera gullvægt. (Viðskrh.: Engin undantekning.) Eða undantekning. Hér er kominn nýr mælikvarði, hæstv. ráðherra telur beinlínis að sérhver viðskiptaráðherra megi svindla á lögunum einu sinni? (Gripið fram í.) Ég held að það séu ekki góðar reglur sem hæstv. ráðherra hefur lagt í dag og vísa til þess að hér eru virðulegir lögfræðingar í salnum sem hljóta að vera mér sammála og munu örugglega taka til máls síðar í dag og átelja ráðherra fyrir þessa lausung í meðferð lagaákvæða.