132. löggjafarþing — 74. fundur,  23. feb. 2006.

Fjármálaeftirlit.

556. mál
[15:47]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Hér er á ferðinni um margt flókið mál og ræða mín mun ekki ganga út á að fara yfir einstakar greinar. Ég held hins vegar að full ástæða sé til að reyna að skilja betur hvað er á bak við þær breytingar sem lagðar eru til. Mér fannst einhvern veginn að ræða hæstv. ráðherra færði mér ekki algerlega þann skilning sem ég hefði gjarnan viljað fá á málinu, t.d. hvers vegna sumt af því er gert sem hér er lagt til. En áður en ég kem að því langar mig til að blanda mér í þá umræðu sem varð áðan þegar hæstv. ráðherra átti orðastað við hv. þm. Össur Skarphéðinsson.

Hæstv. ráðherra sagði að allir ættu að geta snúið sér til þessarar eftirlitsstofnunar, nema hæstv. ráðherra sjálfur. Ég skildi það þannig að hæstv. ráðherra væri nánast að tala um sig og ríkisstjórnina. Það er svo að hæstv. ráðherra ber ásamt ríkisstjórninni alveg sérstaka ábyrgð á því verkefni sem hér er talað um, einkavæðingunni á Búnaðarbankanum. Nú spyr ég hæstv. ráðherra: Hver var það sem átti að gæta hagsmuna almennings og snúa sér til Fjármálaeftirlitsins til að fylgja því eftir að þar væri tekið á málum? Í hvers valdi var það og hver hafði þá skyldu að gera það og hvers vegna var það ekki gert? Stendur kannski til að gera bragarbót á þessu? Það getur auðvitað ekki gengið að enginn geti gætt hagsmuna almennings í málinu. Hæstv. ráðherra getur kannski borið því við að hann sem slíkur hafi ekki átt að gera það en hann getur það ekki nema því aðeins að það séu þá einhverjir aðrir sem beri þá ábyrgð og eigi að sinna henni því ríkisstjórnin ber ábyrgð á þessu máli sem heild.

Það er ekki eins og hægt sé að skilja við þetta mál bara af því að það er í fortíðinni, þau orð hafa stundum verið viðhöfð í þingsal, að menn séu að tala um það sem liðið er og það sé orðin fortíð. Þarna var verið að fara með eigur almennings og full ástæða til að velta því fyrir sér með hvaða hætti þær hafa komist í hendur á þeim eigendum sem hafa átt þessa hluti frá því af stað var farið.

Sá hlutur sem mest er umræddur núna er sá hlutur sem var talinn hafa verið og er af sumum talinn hafa verið í eigu þýsks banka. Ég veit ekki til þess að sá hlutur hafi verið boðinn til sölu á markaði á Íslandi áður en hann skipti um hendur, hafi hann gert það. Hann mun hins vegar vera talinn í eigu Íslendinga eða Íslendings núna. Hvernig gerðist það? Var tilkynnt um þá sölu? Fengu eftirlitsstofnanirnar ekkert að vita um að ráðandi hlutur væri til sölu? Hefur það verið skoðað? Og hver á að sjá til þess að það verði skoðað? Er eitthvert vandamál á ferðinni sem hefur verið hjá Kauphöll Íslands líka? Nú geri ég ekki ráð fyrir að þetta mál snerti Kauphöllina en ég sé það á þeim breytingartillögum sem eru í frumvarpinu að verið er að gera Fjármálaeftirlitinu kleift að fá upplýsingar úr Kauphöllinni sem Fjármálaeftirlitið virðist ekki hafa átt möguleika á að fá áður og þess vegna spyr ég: Er þörf á þessu? Hefur verið vandamál fyrir Fjármálaeftirlitið að fylgjast með þeim viðskiptum sem hafa farið fram í gegnum Kauphöll Íslands? Ég held að gagnlegt sé að menn viti hvort vandamál hafa verið þarna uppi og ég spyr um 8. gr. sem er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Í tengslum við athuganir tiltekinna mála er Fjármálaeftirlitinu heimilt að afla upplýsinga og gagna frá öðrum stjórnvöldum óháð þagnarskyldu þeirra.“

Þýðir þetta ekki að Fjármálaeftirlitið getur sótt allar upplýsingar til Kauphallarinnar sem það vill fá? Er það ekki þannig? Ég endurtek spurninguna: Hafa verið uppi vandamál við að fá þessar upplýsingar og hvaða mál eru það sem þar skipta máli?

Ég tek síðan undir það sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson sagði áðan að full ástæða er til að skýra þessar reglur og gera mögulegt að fylgjast vel með. Ég held að við höfum staðið okkur ákaflega illa í því að hafa hér skynsamlegt regluverk í gangi. Sannleikurinn er sá að fjármálamarkaðurinn á Íslandi er ormagryfja. Eðlilegar reglur hafa ekki verið í gangi. Við stöndum frammi fyrir því að helstu keppinautar okkar á fjármálamarkaðnum eru bankarnir sjálfir, bankarnir sem eiga að gæta hagsmuna okkar. Ef við erum að reyna að ávaxta okkar fé í bönkum landsins þá eru helstu keppinautarnir þeir sem eru að þjónusta okkur og það geta verið bæði bankarnir sjálfir og þær persónur sem eru að þjónusta okkur í bönkunum. Þarna hafa stjórnvöld og hæstv. viðskiptaráðherra ekki gætt nógu vel að í fortíðinni. Svona hafa málin verið. Ég held þess vegna að full ástæða sé til að menn skoði sig vandlega um í nefndinni og fari vandlega yfir þær tillögur sem hér eru og reyni að finna þær leiðir sem skynsamlegastar eru án þess að drepa viðskipti í landinu í dróma. Ég tel að það megi ekki gerast. Ég tel hins vegar að það sem eigi að svífa yfir vötnunum í nefndinni þegar verður farið yfir málið, sé að gætt verði að hagsmunum almennings og menn hugsi allt eftirlit út frá því að þeim hagsmunum verði borgið. Ekki veitir af aðhaldi í þessari grein. Því miður er full ástæða til að menn gæti að sér í viðskiptum á Íslandi og ekki síst gagnvart þeim þjónustuaðilum sem eru stærstir og sterkastir og telja sig hafa ástæðu til að auglýsa það út um borg og bý að þeir þjónusti fólkið í landinu.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra. Ég hef ekki sett mig inn í þetta mál með þeim hætti að ég geti farið yfir einstakar greinar. Ég geri ráð fyrir að nefndin leggi í þetta mikla vinnu og er satt að segja ekki alveg viss um að við fáum að sjá þetta mál að vori til afgreiðslu einfaldlega vegna þess að ég tel að þetta sé það mikið verkefni en þó er hægt að halda í vonina um það.