132. löggjafarþing — 74. fundur,  23. feb. 2006.

Skattaumhverfi líknarfélaga.

547. mál
[16:20]
Hlusta

Pétur Bjarnason (Fl):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Söndru Franks og meðflutningsmönnum hennar á þingsályktunartillögunni fyrir að leggja hana fram því að hlutverk líknarfélaga í íslensku samfélagi er meira en t.d. mig grunaði fyrir nokkrum árum. Það vill svo til að ég hef tekið þátt í og séð störf slíkra félaga á undanförnum árum og hef gert mér grein fyrir því hversu gífurlega þýðingarmikil þau eru og það er nauðsynlegt að alþingismenn geri sér grein fyrir því og hversu mikla fjármuni verið er að spara fyrir íslenska ríkið.

Hv. flutningsmaður fór vandlega yfir rökin með þessu máli. Ég vil taka fram að þau félög þar sem ég þekki til hafa fengið jákvæðar undirtektir hjá Alþingi og þar með talið hjá fjárlaganefnd en vert er að hafa í huga að þar er aðeins verið að endurgreiða hluta af þeim fjármunum sem þessi félög hafa lagt ríkinu til, m.a. í virðisaukaskatti, eignarskatti, erfðafjárskatti og fjármagnstekjuskatti, eins og hér hefur komið fram. Í rauninni snýst málið um það að félögin þurfa að koma og biðja um ölmusu sem er aðeins örlítill hluti þess sem þau hafa greitt.

Ég ætla ekki að hafa þessa ræðu langa en ég vil bara ítreka að þessi félög gegna mjög þýðingarmiklu hlutverki, þau spara stórfé fyrir hið opinbera. Ég vona að þau sæki áfram gull í greipar fjárlaganefndar, sérstaklega þegar haft er í huga að þar er um að ræða hluta af þeim fjármunum sem þau hafa lagt íslenska ríkinu til. Það væri mikil þörf á því að gera úttekt á starfi líknarfélaga hérlendis, hversu umfangsmikið það er, hvað starfsemi þeirra kostar, hvað almenningur leggur til þeirra og þar með samfélagsins, hvað þessi félög greiða til hins opinbera og hvað þau fá til baka. Ég held að sú úttekt gæti verið mjög fróðleg og afskaplega gagnleg fyrir þingmenn.