132. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2006.

Kjaradeila ljósmæðra.

[10:38]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Hér er um að ræða sjálfstætt starfandi ljósmæður í heimaþjónustu og viðræður við þær um kaup og kjör. Ég vil í upphafi taka fram að þetta er áríðandi starfsemi sem við viljum hafa í heilbrigðiskerfinu. Ég vonast til að samningar takist en þeir eru í höndum samninganefndar heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins og Tryggingastofnunar.

Þetta mál snýst ekki fyrst og fremst um þær upphæðir sem þarna er um að ræða heldur miklu fremur um jafnræði og viðmiðanir við viðmiðunarstéttir. Það var samningafundur í gær og eftir þeim upplýsingum sem ég hef þá þokuðust þær áleiðis. Ljósmæður munu fara yfir sín mál í kvöld. Vonandi takast samningar í þessari deilu. Ég skora á þær að setjast niður og ganga frá samningum við okkur á svipuðum nótum og þær höfðu reyndar fallist á áður.

Ég vil einnig taka fram varðandi þjónustuna sem veitt er að við höfum þegar gert ráðstafanir til að setja stofnanir okkar í viðbragðsstöðu til að auka þjónustuna á þessu sviði, bæði heilsugæsluna og spítalann en vonandi þarf ekki að koma til þess í langan tíma að þessi starfsemi liggi niðri. Hún er nauðsynleg og við viljum að henni sé haldið áfram. Málið er í viðræðu við samninganefndina. Það hefur þokast áleiðis í samningum þannig að ég reikna með og vonast til að niðurstaða fáist í málinu.