132. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2006.

Kjaradeila ljósmæðra.

[10:44]
Hlusta

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Það má segja að sú þjónusta sem hér um ræðir, þjónusta við barnshafandi konur, sængurkonur og nýbura, sé í raun kjarninn í velferðarsamfélaginu. Þetta er sá mælikvarði sem við leggjum á samfélög þegar við mælum velferð þeirra og hagsæld, ekki bara á Íslandi heldur um allan heim. Hann er mældur m.a. í mæðradauða og nýburadauða.

Á Íslandi búum við í rauninni við mjög gott kerfi en að því er sótt. Hvernig má það vera, frú forseti, að teflt er á tæpasta vað í þessari þjónustu? Hvernig má það vera að hún sé látin falla niður sólarhringum saman og það sé í raun ekki ljóst hvenær hún verður tekin upp aftur? Eðli málsins samkvæmt þolir það enga bið.

Svo er annað í þessu máli að á síðustu árum og áratugum hefur val kvenna hvað varðar fæðingar og þjónustu við þær minnkað niður í næstum því ekki neitt. Fæðingarheimilin hafa verið lögð niður, nú er búið að leggja niður MFS-þjónustuna, sem ég neita að trúa fyrr en ég tek á því í raun, og heimafæðingum er ekki gert það hátt undir höfði að þær séu raunverulegur valkostur. Konur hafa í raun ekkert val. Það verður líka að skoða þetta mál í því samhengi. En mestu máli skiptir að sjálfstætt starfandi ljósmæður veita góða þjónustu, góða og örugga þjónustu sem er hagstæð fyrir ríkið sem greiðir fyrir hana og góð fyrir mæðurnar og börnin sem njóta hennar.