132. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2006.

Kjaradeila ljósmæðra.

[10:50]
Hlusta

Hlynur Hallsson (Vg):

Frú forseti. Það er ágætt að þessu máli sé hreyft á Alþingi. Rétt er að leggja áherslu á að fjölbreytni sem kostur fyrir mæður sem eru að eignast börn er afar mikilvægur. Einnig er rétt að líta á það að sjálfstætt starfandi ljósmæður hafa í raun og veru verið að borga með sér hingað til. Það er sorglegt að þessi kjaradeila skuli ekki vera leyst vegna þess að mjög lítið ber í milli. Í umræðunni í dag hefur einmitt komið skýrt fram að ríkið er að spara mikið á þessari þjónustu og auk þess er engin tilviljun að meira en 60% foreldra ákveða að fara út af sjúkrahúsinu og heim til að annast börn sín.

Einnig er rétt að líta á það sem hefur verið að breytast á síðustu árum, að það að eignast barn á kannski alls ekki heima á sjúkrahúsi. Þess vegna finnst mér mjög mikilvægt að við gerðum heimafæðingum hærra undir höfði. Þarna er heilbrigðiskerfið að spara gríðarlega fjármuni. Þess vegna er þetta vandræðalegt í rauninni. Verið er að kasta krónunni en spara aurinn. Þetta er ástand sem er ekki líðandi og bitnar eins og svo oft á þeim sem síst skyldi, þ.e. mæðrum og nýfæddum börnum þeirra. Þess vegna hvet ég hæstv. heilbrigðisráðherra til að hotta nú á sína menn svo hægt verði að semja í hvelli við ljósmæður. Við eigum að vera stolt af þeirri þjónustu sem þær hafa verið að veita og ég vona að þessu verði kippt í liðinn sem fyrst.