132. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2006.

Kjaradeila ljósmæðra.

[10:53]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Hér hafa svo sem verið fluttar margar ágætar ræður og kannski litlu við þetta að bæta. Fram hafa komið áhugaverðar upplýsingar um þessa þjónustu, hvað hún kostar og það hefur verið sett í samhengi við aðrar leiðir ef svo má segja fyrir mæður með nýfædd börn og hvað það síðan mundi kosta fyrir þjóðfélagið.

Öll höfum við fæðst í þennan heim og við erum öll sammála um að það starf sem þessar konur vinna er mjög mikilvægt. Það er engum vafa undirorpið.

Við í Frjálslynda flokknum erum þeirrar skoðunar að nýta þurfi kosti einkaframtaksins í heilbrigðisþjónustunni eftir því sem við verður komið til að fjármunir almennings nýtist sem best. Ég fæ ekki betur séð en hér sé einmitt um að ræða starfsemi sem gerir það að verkum að við nýtum kosti einkaframtaksins og spörum um leið mikla peninga.

Ég ætla alls ekki að fara að efast um að kröfur ljósmæðra séu réttmætar, þær eiga örugglega rétt á sér, ég er ekki í neinum vafa um það. Og ég fagna því sem hæstv. ráðherra sagði í ræðu sinni áðan að verið væri að vinna að lausn deilunnar og mér heyrðist ekki betur en að hann væri nokkuð bjartsýnn á að lausnin væri rétt handan við hornið. Ég get því ekki annað, virðulegi forseti, en komið hingað upp í ræðustól og brýnt hæstv. heilbrigðisráðherra til dáða og vil hvetja hann til að þetta mál verði leyst hið fyrsta því um mjög svo mikilvæga þjónustu er að ræða fyrir okkur öll.