132. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2006.

Hafnalög.

380. mál
[11:00]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Það frumvarp sem hér er komið til 3. umr. er um breytingar á hafnalögum sem full samstaða er um í samgöngunefnd og ég er m.a. á nefndarálitinu þar sem mælt er með því að frumvarpið verði samþykkt. Frumvarpið fjallar um að lengja, ef svo má að orði komast, þann tíma sem ríkissjóður tekur þátt í uppbyggingu hafna, með öðrum orðum að fresta gildistöku ákvæðis sem var samþykkt hér með breytingum á hafnalögum þess eðlis að ríkið komi í minna mæli að framkvæmdum við hafnir vítt og breitt um landið. Ég fagna þessu frumvarpi og það kom fram í samgöngunefnd að þeir sem voru spurðir fagna því líka. Ég hef það á tilfinningunni að við fáum aftur frumvarp af þessu tagi þar sem þessi frestur verður enn lengri en til 2007–2008, eins og fjallað er um hér.

Á sínum tíma, virðulegi forseti, sagði ég að þær breytingar sem gerðar voru með þessum hafnalögum væru í raun og veru árás á ansi margar hafnir og drægju úr uppbyggingu þeirra. Það eigum við eftir að sjá enn betur á komandi árum þegar dregur úr viðhaldi þeirra og uppbyggingu vítt og breitt um landið. Þetta segi ég m.a., virðulegi forseti, vegna þess að á sama tíma og við erum að gera þessa breytingu hefur hin hafnsækna starfsemi í mörgum höfnum landsins því miður dregist mjög saman. Það er einkum vegna þess að strandsiglingar hafa lagst af í landinu og vöruflutningar fara því ekki lengur um hafnir landsins nema að litlu leyti. Það leiðir svo aftur hugann að því sem rætt var í samgöngunefnd — og hefur oft verið rætt hér á hinu háa Alþingi en aldrei verið farið í — hvernig tekjur hafnirnar eiga að hafa til að reka sig. Þær þurfa jú meiri tekjur frá notendum eftir að ríkissjóður hættir að styrkja uppbyggingu og viðhald þeirra.

Þetta segi ég, virðulegi forseti, m.a. vegna þess að þetta er afleiðing þess að strandsiglingar voru lagðar niður. Þetta er hluti af því. Skal ég nú taka dæmi, virðulegi forseti. Við getum ímyndað okkur fiskigáma fulla af fiski sem oft og tíðum eru fylltir í höfnum landsins við bryggju. Þar eru gámarnir, þar er vörunni umstaflað og síðan lyft upp. Ef gáminum er lyft upp á flutningabíl sem fer svo um þjóðvegi landsins hefur viðkomandi höfn engar tekjur af þessu. Sé gámurinn hins vegar hífður um borð í skip kemur mikill kostnaður á þann flutning vegna þess að það er hluti af tekjustofnum hafnarinnar.

Virðulegi forseti. Það er sannarlega mjög bagalegt og slæmt að strandsiglingar skuli hafa verið lagðar af. Ég sakna þess að hæstv. samgönguráðherra og hæstv. ríkisstjórn skuli ekki taka það mál til meiri athugunar en gert er og fara þá leið, sem margir tala um að sé fær, að bjóða strandsiglingar út. Það yrði þá gert á þann hátt sem gert er á mörgum öðrum sviðum. Ég get nefnt sem dæmi almenningssamgöngur með rútubílum sem nýlega voru boðnar út og eru styrktar af ríkissjóði. Þar fór einfaldlega fram útboð og sá sem bauð best hreppti hnossið og fékk með ákveðnar greiðslur úr ríkissjóði. Hið sama á við um allar ferjusiglingar. Þær eru boðnar út og ríkið greiðir með þeim ákveðnar upphæðir. Sá sem býður best og tekur að sér að reka það verkefni á sem hagkvæmastan og bestan hátt, að sjálfsögðu með það að leiðarljósi að útgjöld ríkissjóðs verði sem lægst, fær það verkefni. Þessi aðferð hefur líka verið notuð í innanlandsflugi til nokkurra minni staða á landinu. Þessi aðferð er líka vel þekkt í nágrannalöndum okkar, sem við miðum okkur við, og er samþykkt af öllum eftirlitsstofnunum Evrópusambandsins. Við gætum þess vegna farið þá leið.

Virðulegi forseti. Á fundi sem haldinn var á Akureyri ekki alls fyrir löngu kom fram að norskt skipafélag ætlar að taka upp siglingar frá nokkrum Evrópuhöfnum til Akureyrar og ef til vill til annarra hafna á landsbyggðinni. Það er gott. Það vakti sérstaka athygli mína á þeim fundi hve margir fulltrúar annarra skipafélaga á Íslandi voru mættir til að fylgjast með og skoða hvað væri að gerast. Ég sagði þegar ég stóð upp af þeim fundi, virðulegi forseti, að það kæmi mér ekki á óvart þó að stóru skipafélögin hér á Íslandi tækju sig til og hæfu strandsiglingar í framhaldi af því, vegna þess að von væri á samkeppni um þessa flutninga. Sú hefur þó ekki enn orðið raunin og þess vegna hika ég ekki við að halda því fram, virðulegi forseti, að fara eigi þessa útboðsleið til að strandsiglingar hefjist á ný. Við eigum að bjóða út siglingu til ákveðinna hafna og sjá hvaða boð við fáum. Ég er sannfærður um að við fáum hagstæð boð vegna þess að það yrði keppst um það meðal skipafélaga að halda þessum strandsiglingum, m.a. til að halda áframhaldandi flutningi út úr landinu.

Því miður hefur ríkisstjórnin tekið þá ákvörðun að gera það ekki og vill ekki hlusta á það. Menn ræða stundum um hvað þetta mundi kosta. Ég er sannfærður um að þetta mundi kosta miklu minna fyrir ríkissjóð en það mikla slit á þjóðvegum landsins sem hefur aukist mikið við þessa svakalegu þungaflutninga. Þjóðvegirnir eru ekki byggðir fyrir svona mikla flutninga. Þeir sem keyra mikið um þjóðvegi landsins, að ég tali nú ekki um núna þegar hlýtt hefur verið í veðri og frost er að fara úr jörðu, sjá hvernig vegirnir eru að tætast í sundur. Það ætti því að vera hagkvæmt fyrir ríkissjóð að fara þessa leið, að freista þess að fá þungaflutninga af þjóðvegum landsins og í strandsiglingar á ný. Það yrði efnahagslega mjög hagkvæmt fyrir þá sem þurfa að kaupa flutninga vegna þess að það er dýrara að flytja með bílum en í strandsiglingum. Þetta er líka umhverfisvænna, minni losun er á gróðurhúsalofttegundum og öðru slíku. Í þriðja lagi er um að ræða umferðaröryggismál. Það þekkja þeir líka sem aka um þjóðvegi landsins, innan um þessa miklu og stóru bíla með jafnvel upp undir 40 feta gám aftan í sér, að það er ekkert gamanmál að mæta þeim bílum.

Það er bara þannig, virðulegi forseti, að við höfum ekki byggt þjóðvegi landsins upp hvað varðar burðarþol til þess að taka þessa svakalegu miklu flutninga og þeir eru heldur ekki nógu breiðir til að þeir geti talist öruggir þegar tveir bílar mætast. Það er með ólíkindum, virðulegi forseti, að ríkisstjórnin skuli ekki hafa skoðað þetta mál betur en raun ber vitni og skuli ekki skoða þá leið að bjóða út strandsiglingar á ný.

Ég hef líka, virðulegi forseti, heyrt að hægt væri að nota annars konar skip en notuð voru í strandsiglingarnar fyrir nokkrum árum, svokölluð ekjuskip, ef ég man rétt, sem væru miklu hagkvæmari og yrðu til þess að ekki þyrfti að flytja eins mikið af tómum gámum á milli hafna, sem er auðvitað mjög dýrt. Á þann veg yrði hægt að koma við á höfnum og taka vörur á brettum og á annan hátt og flytja til hafna þar sem þeim væri umstaflað í gáma til útflutnings.

Ég hef líka sagt, virðulegi forseti, að það sé hægt að afla tekna til að fara þessa útboðsleið. Ég ætla ekki að hafa langt mál um það hér. Það snýst um að taka upp hina alþjóðlegu skipaskrá en eins og við vitum eru öll millilandaskip að fara út úr landinu og verða skráð í nágrannalöndum okkar, þar með talið hjá Færeyingum. Skipafélögin fá þá ákveðna skattaívilnun til baka af sköttum sem greiddir eru af starfsmönnum og talið er að það geti verið 200–300 millj. kr. sem ríkissjóður gæti náð sér í með þeim litla hluta af sköttum starfsmanna á íslenskum millilandaskipum sem kæmu til ríkisins, en það eru í kringum 7% sem yrðu eftir. Þá peninga mætti m.a. nota til að bjóða út strandsiglingar.

En það er líka rétt að hafa í huga í þessu sambandi að vegna þessarar alþjóðlegu skipaskrár og þeirra skattaívilnana sem eru í gangi, eins og í Færeyjum, þá eiga sér stað núna flutningar um strönd Íslands, þ.e. olíuflutningar, sem eru niðurgreiddir af frændum okkar Færeyingum. Skipið sem notað er við þá flutninga er skráð í Færeyjum og nýtur þeirra skattalegu ívilnana sem ég hef rætt stuttlega.

Virðulegi forseti. Það frumvarp sem hér er um að ræða er gott. Það er eðlilegt að það komi fram og ég spái því að frekari frestur verði settur inn á seinni tímum vegna þess að það er ekki hægt að gera þetta eins og hafnalögin gerðu ráð fyrir með þeim breytingum sem þar voru samþykktar. Þar skiptir þenslan í landinu máli, en vegna hennar fást ekki verktakar til framkvæmda, og einnig slæm fjárhagsstaða margra hafna. Ég fagna því frumvarpi sem hér er lagt fram, þó það gangi stutt, og styð það.